144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

útreikningur nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

18. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Þetta er einmitt hluti af því sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni að ræða skuli. Þarf fólk einkabíl? Það er auðvitað mismunandi eftir því hvar fólk býr hvernig samgöngum er háttað. Víða um landið eru almenningssamgöngur ekki fyrir hendi og ekki hægt að treysta á þær þannig að þar þarf fólk jafnvel á einkabíl að halda. Þetta er málefni sem þarf að ræða og mjög gott að gera það fyrir opnum tjöldum og tala hreinskilnislega um hlutina. Allir vita að við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og ákveða hvernig við getum ráðstafað fjármunum okkar eftir þeim tekjum sem við erum með og hverjar afborganir okkar eru af hinum og þessum þáttum.

Þetta var kannski ekki beint andsvar hjá hv. þingmanni heldur frekar umræða, mér fannst hann meira vera að velta hlutunum fyrir sér. Hvort fólk vill eiga einkabíl eða fara í utanlandsferð er nokkuð sem þarf að skoða og skoða svo meðaltalsneyslu einstaklinga jafnvel eftir mismunandi tekjuhópum. Ég veit það ekki, ég er að hugsa upphátt.

Það er mikilvægt að umræðan fari fram og verði hægt að fylgjast með hvernig henni verður háttað.