144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:07]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja flutningsmanninn: Hver er lágmarksþjónusta sem þarf að veita í grunninn? Er það hraði? Er það öryggi eða eitthvað annað? Það var fyrsta spurningin.

Svona af því hér stendur í greinargerðinni, og þingmaðurinn minntist á það, að við sem erum eldri, nú er ég 34 ára, munum eftir „dial up-tengingunni“. Sums staðar er það enn þá þannig reyndar.

Í greinargerð stendur að netgæði víðs vegar um land séu ekki samkeppnishæf við þau netgæði sem megi finna á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar er það reyndar þannig líka að það er ekki einu sinni að rafmagn eða útvarp eða sjónvarp séu trygg, þannig að við eigum mjög langt í land með að vera búin að tryggja að fólk hafi aðgang að netinu. Sannarlega er netið hluti af daglegu lífi. Ég þekki dæmi um að fólk sem hefur búið á Raufarhöfn hefur ekki getað stundað fjarnám vegna þess að það er óöruggt net, reyndar rafmagnið líka, menn hafa ekki getað sent og sótt verkefni þegar menn eru í námi þar.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn aðeins um ábyrgð þeirra sem bjóða þjónustuna. Mér fannst það kannski aðeins vanta inn í greinargerðina ábyrgð þeirra sem bjóða þessa þjónustu, alveg eins og ábyrgð þeirra sem selja aðra þjónustu, hvort sem það er verslun eða eitthvað annað.

Það voru þessar tvær spurningar: Hvað er þessi lágmarksþjónusta, hvar liggur línan með það? Er það hraði eða öryggi eða eitthvað annað?