144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn í þessa umræðu. Við ræddum mál af þessu tagi hér í gær, þ.e. um internetið, stöðu þess og annað því um líkt. Hér hefur aðeins verið komið inn á fjarskiptaáætlun sem ríkisstjórnin er að láta vinna. Ég tek undir að það er kannski ekki nákvæmlega það sama sem hér um ræðir þó að þetta skarist vissulega. Ég held að það sé mjög mikilvægt og áríðandi að þetta sé brýnt.

Í andsvörum milli þingmanna áðan kom fram hversu slæm staðan raunverulega er í þessum málum mjög víða. Ég tek undir það sem hér kemur fram, þetta skiptir mjög miklu máli fyrir búsetu í landinu, ekki bara eins og hér kom fram í gær, að fyrirtæki geti verið sett á laggirnar, heldur líka til daglegra nota. Það er með ólíkindum að maður heyri enn að sveitarstjórnir telji internetvandamál sitt brýnasta mál þegar þær koma á fund fjárlaganefndar.

Þau stóru mistök sem áttu sér stað þegar Síminn var seldur eru að bíta í okkur núna, eru svo sem búin að gera alla tíð síðan hann var seldur. Það voru mistök og ég velti því hér upp í gær og geri það aftur í dag hvort ríkið eigi að taka til sín grunnnetið aftur. Sjá þingmenn fyrir sér að einkafyrirtækin geri það sem gera þarf? Það held ég ekki. Sveitarfélögin eru farin að standa í því sjálf, sum hver sem hafa tök á því, að leggja ljósleiðara og koma fólkinu sínu í samband til að halda íbúunum heima. Það er ekki ásættanlegt því að er líka mismunun að sum sveitarfélög hafa tök á því að gera þetta en önnur geta það alls ekki vegna stöðu sinnar. Það er mismunun.

Það er skylda ríkisins að sjá til þess að þegnarnir geti allir búið við þær aðstæður að sækja sér þá nauðsynlegu þjónustu sem meira að segja ríkið sjálft stendur fyrir, eins og komið var inn á í andsvörum. Okkur er gert að skila skattframtalinu og öðru því um líku í gegnum netið en svo eru bara ekkert allir sem hafa kost á að gera það. Fólk þarf jafnvel að fara á milli húsa eða lengri vegalengdir til að framkvæma ýmislegt sem okkur mörgum hverjum þykir svo sjálfsagt.

Mér finnst mjög margt í þessari þingsályktunartillögu sem, eins og ég segi, okkur þykir svo óskaplega eðlilegt að sé til staðar en er það ekki. Þetta minnir okkur á og brýnir okkur í því að fylgja því mjög fast eftir að þetta verði gert.

Ekki veit ég hvort það hefur verið kannað hvað það kostar að taka grunnnetið til baka og hvort það er framkvæmanlegt, en ég held að það sé eina leiðin sem virkar til þess að jafnt aðgengi að netinu til allra landsmanna verði framkvæmanlegt. Ég sé það því miður ekki gerast öðruvísi.

Það kom fram á fundi fjárlaganefndar í fyrra, og kom fram einmitt áðan líka, þegar sveitarfélögin komu til fundar við okkur, að „dial up“-tenging, þ.e. upphringinetsamband, væri enn til staðar. Í fyrra var mér orðið frekar fjarlægt að það væri enn raunveruleikinn. En það er þannig, því miður.

Ég tek undir það að sú skerta þjónusta sem margir búa enn við er ekki boðleg og við þurfum að leggjast á eitt við að bæta úr því.

Um leið og við tölum fyrir aukinni menntun, að fólk geti stundað nám heiman að frá sér, aukinni rafrænni stjórnsýslu o.s.frv. erum við að segja að ríkið ætli sér að standa að þessari þjónustu. Þrátt fyrir sæmilega nettengingu er það ekki hraðbraut. Eins og hér er komið inn á er það ekki þotuafl, heldur hestafl.

Eins og ég sagði hér í gær var tekið dæmi á fundi fjárlaganefndar í fyrra af bónda sem sendi tölvuskeyti af stað, fór svo að mjólka, kom inn aftur og þá var það rétt farið. Þetta er nokkuð sem á ekki að eiga sér stað.

Ég spyr hv. flutningsmann hvort hún hafi eitthvað velt fyrir sér þeim kostnaði sem fylgir því að framkvæma þessa þingsályktunartillögu, þ.e. lögbinda þessa lágmarksþjónustu. Það felur í sér þann kostnað sem ég sagði hér áðan að fælist í því að allir hefðu þetta aðgengi að netinu. Við þyrftum að hafa einhverjar hugmyndir um það. Kannski er það þessa starfshóps að komast að því. Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um það?

Ég styð eindregið þingsályktunartillöguna og vona svo sannarlega að sátt náist um að koma af stað slíkri nefnd sem leggur fram aðgerðaáætlun. Það ætti ekkert að vera erfitt þrátt fyrir þá fjarskiptaáætlun sem er í gangi eða hópinn sem er að vinna að henni, það ætti að vera kjörið að vinna þetta svolítið samhliða. Það þarf ekki að kosta einhver ósköp að koma slíkum hópi á laggirnar þannig að ég vona að þetta hljóti brautargengi.