144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði hér um hóp en ekki ríkisstjórnina og ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann hvort það væri heppilegasta leiðin að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun og hvers vegna þingmenn Pírata völdu að gera það fremur en að óska eftir því að stofnaður yrði starfshópur, þótt þeir séu nú orðnir ansi margir og við höfum mörg gagnrýnt það. Ég velti fyrir mér hvort hún haldi að málið hljóti skjótari afgreiðslu þannig en ef það færi til einhvers starfshóps. Hér eru nefndar ákveðnar dagsetningar og við eigum eftir að kalla eftir efndum af því að ríkisstjórninni voru falin ýmis verkefni af þinginu sem ég held að hæstv. forsætisráðherra fari bráðlega að gera grein fyrir samkvæmt þingsköpum.

Ég bið því hv. þingmann að svara mér í síðara andsvari hvers vegna þau völdu að fara þessa leið, að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun, í stað þess að fá til þess hóp sem kannski ynni það samhliða fjarskiptahópnum, eins og hér var nefnt áðan.