144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst hugmyndafræðin á bak við ljós í fjós mjög flott og ekkert grín, ég tók því ekki sem gríni. Og ég vil þakka þingmanninum fyrir ræðuna og þær upplýsingar sem þar komu fram.

Ég er alltaf að komast nær og nær þeirri skoðun að við þyrftum að taka grunnnetið aftur til okkar. Það er bara út af því að það mun svo mikið hvíla á því, sem er bara öryggismál. Það er alltaf verið að ýta fólki dýpra og dýpra inn í netið, ekki bara í afþreyingu heldur í lýðræðisvæðingu. Maður sækir eiginlega um alla þjónustu á netinu, hvort sem það er að kaupa mat fyrir börn í skólanum, fylgjast með einkunnum eða borga í bankanum. Nú er það þannig að það á kannski að borga meira fyrir að fara í bankann þannig að ef þú hefur ekki aðgengi að netinu ertu orðinn skör lægra en aðrir. Mér finnst það dálítið alvarlegt.

Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um kostnaðarmatið, hvort það sé rétt. Mér sýnist að kostnaðarmatið sé á milli 6 og 10 milljarðar allt í allt, ef við tækjum grunnnetið til okkar, sem mundi þá falla í skaut ríkissjóðs. Ef svo væri held ég að það mundi fljótt skila sér, því að við erum með ýmsa sjóði sem mætti nota til að hjálpa til við að ná þessari þjónustu fram. Mig langaði að spyrja þingmanninn hvað honum finnist um það.