144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

rannsóknarklasar á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma.

24. mál
[19:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Gamaldags er fyrsta orðið sem mér kom í hug þegar ég sá þessa þingsályktunartillögu. Auðvitað er um að ræða mjög gott málefni en að mínu mati er það ekki okkar alþingismanna að pikka út, ef ég má segja svo, hvað vísindamenn okkar ráðast helst í. Ég er sammála öllu sem hv. þingmaður sagði um aðgerðaáætlunina, peningana sem eiga að fara þangað, vísindamennina og samstarfið. Ég er sammála því öllu, ég er hins vegar ekki sammála því að við hér eigum að tína út einhver sérstök málefni í þessu. Það eiga vísindamennirnir að gera, fræðasamfélagið, en ekki pólitíkusar.

Þá vil ég alls ekki gera lítið úr því að vísindamenn okkar geti ekki unnið einhver afrek í þessum alvarlegu sjúkdómum. Það er bara ekki stjórnmálamannanna að taka þær ákvarðanir, það er annarra og við eigum að láta þeim það eftir.

Ég er sammála öllu sem þingmaðurinn sagði, en hvað næst? Eigum við þá núna að segja í aðgerðaáætluninni eða einhvers staðar í þessum sjóðum að þá eigi frekar að fara í þessar rannsóknir eða einhverjar aðrar? Ætlum við að gera það með því að veita fjármuni sérstaklega í þessar rannsóknir, virðulegi forseti, eða einhverjar aðrar?

Höldum okkur við okkar verkefni, sem er að leggja stóru línurnar, skaffa nóg af peningum inn í rannsókna- og vísindageirann, en látum sérfræðingana (Forseti hringir.) og þá sem kunna til verka um hvernig það fer í einstakar vísindagreinar.