144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

rannsóknarklasar á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma.

24. mál
[19:05]
Horfa

Flm. (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir andsvarið. Gamaldags? Ég taldi mig mjög nútímalega að taka þátt í þessari áskorun sem gekk yfir heiminn núna í ágúst. Ég fékk áskorun, eins og ég sagði í ræðu minni, frá Lofti Altice Þorsteinssyni þar sem hann hvatti okkur til dáða. Þetta var áskorun frá honum til að vekja athygli á þessum sjúkdómi og ég tók henni. Verði þessi tillaga samþykkt er ég tilbúin að láta hella yfir mig úr vatnsfötunni.

Mig langar samt að segja frá því að ég er ekki ein um þetta. Það var mikil umræða í Stórþinginu í Ósló þar sem þingmaður spurði hvað ráðherra vildi gera til að tryggja stuðning við þessa sjúklinga. Hann segir einmitt að það vanti betri og dýpri upplýsingar um sjúkdóminn, það vanti rannsóknir til að við getum betur gert okkur grein fyrir því. Það eru þá til fleiri gamaldags þingmenn en sú sem hér stendur.