144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Fréttir bárust af því í vikunni að þar hefði tíu starfsmönnum verið sagt upp. Starfsmenn eru því orðnir helmingi færri en þegar skólinn var sameinaður á sínum tíma þó að þeirri sameiningu hafi í raun aldrei fylgt að starfsemin sameinaðist öll á einum stað.

Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra hafði lýst yfir þeim vilja sínum að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri Háskóla Íslands. Sá möguleiki hafði verið skoðaður meðan ég gegndi embætti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og vissulega liggja þar mjög mikil fagleg tækifæri en líka umtalsverð útgjöld sem mundu fylgja því að fara í slíka sameiningu.

Eins og ég hef ávallt sagt hef ég hins vegar talið að þarna ætti að horfa til faglegs ávinnings en líka hvaða starfsemi væri þá hægt að hafa á Hvanneyri. Það yrði fyrir fram skipulagt hvernig þessari starfsemi yrði skipt en ég skil líka hinar blendnu tilfinningar sem heimamenn hljóta að bera í brjósti þegar slík sameining er til umræðu.

Það sem við sjáum hins vegar núna er að fallið hefur verið frá þessum áformum. Það er verið að fækka starfsmönnum. Þessi tíu manna uppsögn dugir ekki einu sinni til til að mæta niðurskurðarkröfu fjárlagafrumvarpsins. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í umræðum um þetta mál á þingi að hér væri um að ræða „grundvallarskóla í landbúnaðarvísindum þjóðarinnar allrar“ og að það væri skylda hans sem menntamálaráðherra að gera allt sem í hans valdi stæði til að tryggja að háskólastarfsemi og vísindarannsóknir á þessu sviði væru sem öflugastar.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Þarna hljótum við að horfa á málefni út frá hagsmunum rannsókna, vísinda og menntunar í landinu öllu. En það þýðir líka að ákvörðun þarf að liggja fyrir. Eins og staðan er núna fækkar bara starfsmönnum, við erum að horfa upp á frekari uppsagnir, skólanum blæðir út og auðvitað stingur það í augu að horfa á sama tíma á önnur ráðuneyti lofa hér verulegum fjármunum í þá aðgerð að flytja störf háskólamenntaðra starfsmanna út á land á meðan þessi starfsemi virðist ætla að leysast upp.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða. Óvissan er það sem er verst (Forseti hringir.) fyrir þetta mál, verst fyrir rannsóknir og vísindi í landinu. Hver verða næstu skref?