144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sagan er löng, allt frá því að þarna eru sameinaðar þrjár stofnanir sem samt eru á þremur stöðum, frá því að skólinn er færður upp á háskólastig án þess að því fylgdi fjármagn á sínum tíma, frá því að skólinn var fluttur milli ráðuneyta. Það er því ljóst að Alþingi Íslendinga aftur í tímann ber umtalsverða ábyrgð á þeirri stöðu sem þarna er uppi.

Hæstv. ráðherra segir hér að hann hafi áttað sig á því að ekki væri pólitískur meiri hluti fyrir sameiningu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er pólitískur meiri hluti fyrir því að starfseminni muni í raun blæða út á meðan ekki er tekin ákvörðun? Ég brýni aftur hæstv. ráðherra, ég held ekki að það sé pólitískur meiri hluti fyrir því. Þarna höfum við ábyrgð að standa undir gagnvart þessum hluta rannsókna- og vísindastarfs í landinu sem er mjög mikilvægt á öllum sviðum.

Ég tel að boltinn hljóti að liggja hjá hæstv. ráðherra, að kynna fyrirætlanir sínar sem hann segir að hann hafi ekki horfið frá, hvað þær feli nákvæmlega í sér, líka fyrir fulltrúum stjórnarandstöðu hér í þinginu, hvað þær þýði fyrir vísindastarf á þessu (Forseti hringir.) málefnasviði og fyrir menntastofnuninni í héraði sem hann nefndi í fyrra svari sínu.