144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það mál sem hér er rætt um tel ég að sé nokkuð breið pólitísk samstaða um að hafa í forgangi á næstu árum. Þingið hefur nýlega ályktað um þetta mál og lagt áherslu á að það sé sett í forgang. Með þeirri ályktun var t.d. tekin ákvörðun um hvar spítalinn ætti að rísa, einnig á hvaða grunni sú vinna ætti að fara fram sem fram undan er, þ.e. á grundvelli þess undirbúnings sem hefur verið unninn undanfarin ár.

Með lögum um byggingu nýs spítala var í sjálfu sér tekin afstaða til þess hvernig ætti að fjármagna spítalann, en síðasta kjörtímabil virtist ekki nýtast í margt annað en ákveða hvort það væri í lagi að framkvæmdin yrði að einhverju leyti einkaframkvæmd eða hvort hún þyrfti örugglega að vera einungis opinber. Flokkarnir sem stjórnuðu síðast komu sér saman um að hún þyrfti að vera opinber, samkvæmt þessum lögum. (ÖJ: Ódýrasta leiðin.)

Nú höfum við lokið fullnaðarhönnun á einum af fimm áföngum, þ.e. þeim áfanga sem snýr að sjúkrahótelinu. Um 25% af öðru er hannað, þ.e. af hinum fjóru stóru áföngunum. Hérna erum við að ræða um fjárfestingu sem er af stærðargráðunni 60–80 milljarðar. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ekki mikið svigrúm fyrir slíkri fjárfestingu í langtímaáætlunum um ríkisfjármál, en við erum um þessar mundir að leggjast yfir það ásamt með velferðarráðuneytinu og heilbrigðisráðherra sérstaklega og í mínu ráðuneyti með hvaða hætti við gætum forgangsraðað fjármunum í þágu þessa verkefnis vegna þess að það er eitt af stóru málunum sem við viljum vinna að á næstu árum. Við höfum hins vegar ekki í hyggju að taka lán og skuldsetja ríkissjóð þannig að á sama tíma verði hér hallarekstur á (Forseti hringir.) ríkissjóði til þess að forgangsraða þessu máli.