144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[10:51]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil líka minna á að það getur verið mjög dýrt að draga þetta og grípa ekki til lánaúrræðisins. Það er almenn regla eins og við vitum að opinberar framkvæmdur eru greiddar með lánsfé sem greitt er upp á löngum tíma.

Ég vil árétta hér að Björt framtíð telur vænlegra að taka lán til byggingar nýs spítala en að taka lán til að eiga gjaldeyrisforða til að halda lífi í krónunni þar sem vaxtakostnaður er 20 milljarðar á ári. Þau fjárútlát verða að engu fyrir þjóðina, en lán til sjúkrahúss er fjárfesting í heilsu og lífsgæðum þjóðarinnar.