144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ekkert óeðlilegt við það að hluti af fjármögnun svona framkvæmdar sé einhvers konar lántaka, en það skiptir máli hvað menn skulda fyrir. Í augnablikinu skuldar ríkissjóður tæplega 1.500 milljarða þannig að það er svo sem ekki mikið svigrúm til þess að bæta á þann lánastabba eins og sakir standa. Þess vegna skiptir mjög miklu að þetta sé skoðað í samhengi við langtímaáætlun um þróun ríkisfjármála.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er sárgrætilegt að horfa á eftir þeim mikla kostnaði sem við verðum fyrir til þess að halda uppi miklum gjaldeyrisvaraforða sem hefur þótt vera nauðsynlegt út af útlitinu hvað varðar greiðslujöfnuð landsins á næstu árum og til þess að byggja undir áætlun um afnám haftanna. Það þykir vera nauðsynlegt að hafa ríflegan gjaldeyrisforða meðan á því stendur.

Ekkert af þessu breytir því að (Forseti hringir.) við eigum að forgangsraða í þágu þessa verkefnis. Þessi ríkisstjórn vill bara gera það með þeim hætti að það sé ekki bætt á skuldastöðuna. (ÖJ: Ríkissjóður borgar þetta.)