144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

gagnaver og gagnahýsing.

[10:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þróunin er í þá áttina að geymsla og vinnsla gagna er að færast á skýið. Skýið er í raun jarðbundið í gagnaverum. Upplýsingar og vinnsla þeirra í skýinu fer fram í gagnaverum.

Vöxtur þessa geira er yfir 20% á ári og dagblaðið The Economist segir að ekkert lát sé á þeim öra vexti. Í starfshópi hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í vor kemur fram, með leyfi forseta:

„Ljóst er að gagnaversiðnaðurinn á Íslandi er farinn að vaxa og eftirspurnin eftir gagnahýsingu á heimsvísu mun halda áfram að vaxa hratt. Það er því mikilvægt að fjarlægja óþarfaviðskiptahindranir sem draga úr samkeppnisstöðu landsins við að hýsa gagnaver sem þjóna alþjóðlegum viðskiptavinum. Jákvæð hagræn áhrif öflugs gagnaversiðnaðar á Íslandi er meðal annars aukin fjárfesting, viðskipti við innlend upplýsingatæknifyrirtæki, uppbygging öflugri nettenginga við útlönd, fjölbreyttari viðskiptavinahópur á raforkumarkaði og hagsmunaaðilar sem þrífast í lagaumhverfi friðhelgi einkalífs og upplýsingafrelsis.“

Jafnframt kemur fram í tillögum sem hópurinn í þessari greinargerð kallar eftir varðandi laga- og viðskiptaumhverfi, með leyfi forseta:

„Skýra þarf íslenskar skattareglur varðandi „fasta starfsstöð“ svo afnema megi óþarfaviðskiptahindranir.

Nokkur óvissa er í kringum hugtakið „föst starfsstöð“ í skattalegu tilliti. Slík óvissa er til þess fallin að valda viðskiptahindrunum og er því lagt til að litið verði til annarra landa eftir fordæmum við að skýra, eins fljótt og kostur er, hugtakið fasta starfsstöð. Beint verði til fjármála- og efnahagsráðuneytis að hafa frumkvæði að því að túlka hugtakið fasta starfsstöð og hafa til hliðsjónar stöðuna í Englandi þar sem túlkun hugtaksins leiðir til þess að aðilum er auðveldað að stunda viðskipti í landinu. Starfshópurinn leggur til að svipuð afstaða verði tekin hér á landi og það feli meðal annars í sér að leyfa fyrirtækjum að setja hér upp netþjóna án þess að krefjast fastrar starfsstöðvar.“

Spurningin til (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra er sú hvort hann sé ekki hlynntur því að farið sé eins fljótt og auðið er í þessa vinnu.