144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

[10:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðu um breytingar síðustu ríkisstjórnar á skattalögum féllu ýmsar fullyrðingar sem gætu hljómað sérkennilega úr munni hv. stjórnarþingmanna í dag í ljósi áforma núverandi hæstv. ríkisstjórnar um hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts. Ef ég man rétt fóru tveir hv. þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu þar fremstir í flokki, annars vegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, núverandi formaður fjárlaganefndar, og hins vegar núverandi hæstv. ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur sagt í fjölmiðlum að hún hafi haft rangt fyrir sér í þessu máli og hafi því skipt um skoðun og er hún maður að meiri fyrir vikið að mínu mati og mættu ef til vill fleiri taka sér hana til fyrirmyndar.

Í umræðu um hækkun virðisaukaskatts á hótel- og gistiþjónustu haustið 2012 sagði núverandi hæstv. ferðamálaráðherra meðal annars, með leyfi forseta:

„Um er að ræða atvinnugrein sem gerir áætlanir sínar langt fram í tíma, ólíkt ríkisstjórn Íslands. Breytingin kemur allt of seint fram og jafnvel þó að skatturinn sé lækkaður úr 25,5% í 14% mun hann bitna á gististöðunum því að menn ráða illa við hækkunina. Það er löngu búið að gefa út verðskrá fyrir komandi ár og þegar hafa verið gerðir samningar við hópa og jafnvel einstaklinga sem bóka sig sjálfir.“

Í annarri ræðu af sama tilefni benti hæstv. ráðherra á að ferðaþjónustan væri grein sem gerði áætlanir til tveggja ára. Þess vegna ætti alls ekki að hækka virðisaukaskatt á hótelgistingu úr 7% í 14% nema með tveggja ára aðlögunartíma.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé enn þeirrar skoðunar að ferðaþjónustan þurfi tveggja ára aðlögunartíma að slíkum breytingum.