144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þetta brýna mál sem er innviðir ferðaþjónustunnar. Það er okkur öllum ljóst að samhliða mikilli uppbyggingu innan ferðaþjónustunnar á undanförnum missirum og árum og mikilli fjölgun ferðamanna hér á landi, sem er auðvitað ánægjuefni, þarf að bæta innviði ferðaþjónustunnar. Það lýtur ekki aðeins að því að bæta salernisaðstöðu, göngustíga, samgöngur og fleira slíkt, sem skiptir auðvitað miklu máli, heldur líka að tryggja náttúruvernd, vernd friðlýstra svæða, tryggja að þau haldi sínu miklu verndargildi fram í tímann.

Það hefur hins vegar hefur ríkt óvissa um tekjustofna ferðaþjónustunnar. Áðan var fyrirspurn um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu sem var horfið frá á sínum tíma. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur boðað hugmyndir um náttúrupassa, sem enn hafa ekki litið dagsins ljós, til þess að tryggja tekjustofn fyrir ferðaþjónustuna. Við vitum að það þarf að tryggja tekjustofna. Við þurfum aukið fjármagn, bæði í náttúruvernd og innviði, en á sama tíma hafa verið miklar sveiflur í fjárlögum gagnvart Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þar var fyrst skorið niður um háar fjárhæðir í fjárlögum ársins 2014. Síðan var bætt í hann aftur á fjáraukalögum fyrir árið 2014, nú er aftur skorið niður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015, þannig að óvissan heldur áfram. Við vitum ekki enn þá hvaða leið á að velja til þess að tryggja tekjur fyrir ferðaþjónustuna.

Náttúrupassaleiðin sem hefur verið til umræðu hefur svo fléttast saman við þá hræðilega vondu stöðu sem uppi er þar sem einstakir aðilar hafa farið í gjaldtöku á einstökum svæðum. Samkvæmt svari hæstv. umhverfisráðherra sem barst hér í vor við fyrirspurn minni um lögmæti slíkrar gjaldtöku leyfi ég mér að efast um að slík gjaldtaka standist lög, a.m.k. ekki í öllum tilfellum. Í svarinu segir að ákvæði náttúruverndarlaga um að hugsanlega geti gjaldtaka verið heimil gildi einungis um tvenns konar gjaldtöku, annars vegar að taka inn gjald fyrir veitta þjónustu og hins vegar til að koma í veg fyrir tilteknar skemmdir, og kemur skýrt fram að slík gjaldtaka þarf að vera í umboði Umhverfisstofnunar, samkvæmt samningi við hana. Ákvæðið veitir ekki heimild til almennrar gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum. Það er algjörlega á hreinu, samkvæmt svari hæstv. umhverfisráðherra.

Við erum hér komin með einhvers konar villta vesturs ástand í gjaldtöku sem stenst væntanlega ekki einu sinni lög, náttúruverndarlög. Á meðan er beðið eftir náttúrupassahugmyndinni. Mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um það. Ráðherrann hefur sagt að það þurfi að tryggja tekjustofna, og ég held að við getum öll verið sammála um að mikilvægt er að styrkja innviðina greinarinnar, en ráðherra hefur einna helst mælt fyrir náttúrupassaleiðinni. Ég hef áður rætt hér hvernig slík leið mundi fara saman við ákvæði almannaréttar, sem er undirstaðan fyrir svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni um gjaldtöku, almannarétt sem hefur verið í íslenskum lögum allt frá tímum Jónsbókar. Ég vil minna á að hæstv. umhverfisráðherra, í sérstökum umræðum um málefni almannaréttarins í vor, tiltók sérstaklega að náttúrupassi mætti ekki verða til þess að þrengja að almannarétti, það yrði að tryggja hann. Því væri hann reiðubúinn að skoða aðrar leiðir en náttúrupassaleiðina sem hefði verið boðið.

Mig langar því að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort rýnt hafi verið í ráðuneyti hennar og hæstv. umhverfisráðherra hvernig hugmyndir um náttúrupassa, þar sem allir eru skikkaðir til þess að borga tiltekið gjald, ekki fyrir að þiggja ákveðna þjónustu á ferðamannastöðum heldur fyrir bara að horfa á náttúruna, rími við ákvæði um almannarétt í gildandi lögum, hvort það hafi verið skoðað. Ég vil minna á í þessu tilfelli að í nýrri áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar eru kynntar hugmyndir sem eru til umræðu úti í samfélaginu um það hvort almannarétturinn eigi jafnvel að vera hluti af stjórnarskrá. Við þurfum líka að taka það með í reikninginn.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað aðrar leiðir. Ég veit að það var undir í þeim starfshópi sem starfaði að þessum málum að skoða til að mynda að styrkja gistináttagjaldið eða setja á einhvers konar komu- og brottfarargjöld. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort sú umræða sem hér hefur orðið um mikilvægi almannaréttar hafi orðið til þess að þær leiðir hafi verið skoðaðar eitthvað frekar.

Ég lít svo á að í þessu máli þurfi að hafa ákveðin grundvallaratriði í huga. Ég lít svo á að almannarétturinn sé eitt af þeim grundvallaratriðum, að við getum ferðast um landið og horft á náttúruna án þess að vera rukkuð (Forseti hringir.) fyrir það. Ég held líka að við séum sammála um að það þarf að tryggja innviði ferðaþjónustunnar. Þá þurfum við hreinlega að leggja niður fyrir okkur allar þær leiðir sem eru í boði og finna hvaða leið er skynsamlegust án þess að brotið sé á grundvallaratriðum.