144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fjármögnun innviðauppbyggingar á Íslandi vegna ferðaþjónustunnar hafa verið teknir margir snúningar í gegnum tíðina. Á síðasta kjörtímabili gerðum við þó nokkrar atrennur að því að koma með tillögur um það hvernig mætti fjármagna þessa innviðauppbyggingu. Það var gert með því að komið var með tillögur um annars vegar gistináttagjald og hins vegar gjald á flugmiða. Þingið bakkaði með það þannig að úr varð þetta litla gistináttagjald, þ.e. mjög samanskroppið gistináttagjald sem við þekkjum í dag.

Við komum líka hingað inn með hækkun á virðisaukaskatti á ákveðnar greinar ferðaþjónustunnar og samhliða því voru settir stórauknir fjármunir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða þannig að þetta skilaði sér til ferðaþjónustunnar og uppbyggingar innviða.

Núverandi ríkisstjórn ákvað að draga þetta allt saman til baka, skera niður framkvæmdasjóðinn og losa sig líka við tekjurnar. Núna, ári seinna, er hækkunin á virðisaukaskattinum aftur komin inn en hún skilar sér í engu til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það er niðurskurður þar eins og hv. frummælandi kom inn á í þessari umræðu.

Ég hef engan áhuga á því að standa hér í stjórnarandstöðu eins og stjórnarandstaðan gerði á síðasta kjörtímabili og berjast með kjafti og klóm gegn hverri tillögu sem komið er með hingað inn til þess að tryggja uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ég hef engan áhuga á því. Við ætlum hins vegar að fá að taka þátt í því að koma með einhverja skynsamlega lausn í þessu máli þannig að við hættum þessum snúningum sem hæstv. ráðherra fór yfir hér áðan og eru búnir viðgangast allt of lengi.

Hringlandinn sem við sjáum hjá þessari ríkisstjórn verður að stoppa. Við verðum að fara að sjá einhverja niðurstöðu. Ég held að til þess þurfi hæstv. ráðherra að eiga betra samtal hér (Forseti hringir.) við þingmenn þvert á flokka um niðurstöðu til þess að ásættanleg lausn finnist.