144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra og öðrum þeim sem taka þátt í umræðunni fyrir þessa umræðu um náttúrupassa og almannarétt og ýmislegt fleira sem tengist ferðaþjónustunni.

Almannarétturinn er að mínu mati afskaplega mikilvægur réttur sem við sem þjóð eigum að leggja mikið á okkur til að halda í þó að við þurfum að skoða vel hvernig hann er útfærður á fjölförnum stöðum í náttúrunni.

Ég vona svo sannarlega að ráðherra hafi verið að segja okkur það hér áðan að það styttist í niðurstöðu um hvernig við nálgumst gjaldtöku af ferðamönnum vegna afnota af náttúru Íslands. Við verðum að fara að fá niðurstöðu í það mál. Fyrir hvað á að greiða og í hvað á að nota tekjurnar sem innheimtast? Meðan við höfum beðið eftir lausn á þessu höfum við látið ýmislegt annað bíða. Ekki munu öll verkefni ferðaþjónustunnar leysast þegar þessi gjaldtaka hefst.

Við þurfum að ræða með hvaða hætti er hægt að veita þjónustu, eins og bílastæði og salernisaðstöðu og ýmislegt annað, þannig að staðirnir standi undir kostnaði þar sem ferðamenn stoppa gjarnan við þjóðveginn. Við þurfum að ræða hvort og hvaða þjónusta er greidd úr sameiginlegum sjóðum og skilgreina sérstaklega og setja okkur reglur um þá þjónustu sem tekið verður sérstakt gjald fyrir. Við getum ekki beðið eftir því að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða leysi öll verkefnin. Við þurfum að búa til umhverfi þar sem einstaklingar og landeigendur geta komið að málum líka. Við þurfum einnig að útfæra gjaldtökuheimildirnar í lögum um þjóðgarða og friðlýst svæði svo að hægt sé að vinna úr þeim af skynsemi.

Svo er náttúrlega öll umræðan um markaðssetningu. (Forseti hringir.) Erum við að nýta fjármagn til markaðssetningar á réttan hátt? Gætum við stutt við aðra gátt inn í landið? Hvernig ætlum við að halda Íslandi opnu allt árið o.s.frv.?