144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á hverjum degi um nokkurt skeið hefur íslenski fáninn verið dreginn að húni við Kerið í Grímsnesi. Undir honum blaktandi er aðkomufólk sem vill skoða þennan gamla eldgíg krafið um gjald. Sú gjaldtaka hefur verið úrskurðuð ólögleg án þess þó að stjórnvöld aðhafist nokkuð og verður ekki annað séð en að gjaldheimtan sé þeim beinlínis þóknanleg. Þannig hefur hæstv. ráðherra talað og við heyrðum hvernig ráðherrann forgangsraðar þegar hún minnti þingheim á að eignarrétturinn væri jú varinn í stjórnarskrá en náttúran aðeins í lögum.

Ég minni hæstv. ráðherra á að stjórnarskráin er varnarumgjörð um lögin og nú er að lögunum vegið. Ég tel að við stöndum á ögurstundu því að með aðgerðaleysi sínu gagnvart lögbrotunum geta stjórnvöld skapað lögbrotum og lögbrjótum hefðarrétt sem reynslan kennir að erfitt getur verið við að glíma.

Ég spyr því: Ætlar þessi ríkisstjórn og ætlar þessi hæstv. ráðherra að verða sú ríkisstjórn og sá ráðherra sem kvótavæðir náttúru Íslands, heimilar eigendum lands að selja aðgang að náttúrugersemum Íslands sem samkvæmt lögum, aldagamalli hefð og skilningi okkar flestra í byrjun 21. aldarinnar að eigi að tilheyra okkur öllum? Ég tel að þetta sé eitt af stærstu og örlagaríkustu málum sem nú eru uppi á Íslandi. Það mun verða dómur seinni tíðar manna.

Hæstv. ráðherra sagði: Þeir eiga að borga sem njóta. Ég segi: Þeir eiga að njóta sem vilja njóta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)