144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér flutti fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra ræðu um að hér væru stunduð lögbrot, sem voru löngu hafin og m.a. í hans ráðherratíð, (ÖJ: Nei, það er rangt. Þetta er ósatt.) og menn hefðu átt að bregðast við þá.

Það þarf að bregðast við í þessu máli. Ferðaþjónustan á bara eftir að eflast miðað við þær spár sem við hlustum á, en hún er að sama skapi brothætt. Við búum við viðkvæma náttúru og við höfum áður þurft að bregðast við því, t.d. í sjávarútvegi. Í því tilfelli var það greinin sjálf, þar voru það fyrirtækin sjálf sem greiddu fyrir hagræðingunni og greiddu fyrir verndun náttúrunnar. Þannig þurfum við að feta þetta stig núna til að ná að styrkja okkar viðkvæmu náttúru þannig að hennar verði notið um aldir og við skilum henni til framtíðarkynslóða í því horfi sem hún er í dag og jafnvel betra.

Hvernig ætlum við að fara einfalda leið að hefja þessa gjaldtöku? Ég er alveg tilbúinn til þess að skoða náttúrupassaleiðina en eins og hún hefur verið lögð upp hefur hún ekki náð þeirri sátt sem stefnt var að. Við þurfum greinilega að finna einhverja einfaldari útfærslu á þessari gjaldtöku. Ég er ekki tilbúinn til þess að fara einhverja leið þar sem þetta mun fara meira og minna allt í sjálft sig, þar sem umfangið í kringum gjaldtökuna og eftirlit með gjaldtökunni verður svo viðamikið að stór hluti af því sem innheimtist fer ekki í þá forgangsröðun sem þarf að vera í þágu þess að byggja upp og vernda þá staði sem eru eftirsóknarverðastir, auk þess að fjölga stöðum. Það er auðvitað líka mjög mikilvægt í þessu samhengi, að við aukum fjölbreytnina fyrir ferðamenn, þennan aukna fjölda ferðamanna, til þess að þeir geti farið sem víðast.

Við bíðum eftir niðurstöðu ráðherra (Forseti hringir.) í þessari yfirferð, ég veit að verið er að vinna góða vinnu þar og við erum öll tilbúin til að taka þátt í þessu í þágu íslensks ferðaiðnaðar.