144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sumt fólk er þannig að það þarf sjálft að taka snúning á málunum áður en það fer að sjá ljósið. Það er bara gott og nú hefur það gerst, þessi ríkisstjórn er búin að taka sjálf sama snúning og fráfarandi ríkisstjórn tók á þessu sama máli á síðasta kjörtímabili. Hér er tilkynnt að hugsanlega sé að koma einhver niðurstaða í því. Við erum búin að sjá eina þeirra, það á að hækka virðisaukaskatt á gistingu, án þess þó að skila neinu inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða af þeirri hækkun, en gott og vel.

Við bjuggum við harða andstöðu í þessu máli á síðasta kjörtímabili, en það verður ekki þannig núna, a.m.k. ekki hvað okkur varðar í Samfylkingunni. Við höfum mjög mikinn áhuga á því að sjá þetta mál farsællega leitt til lykta og við viljum stuðla að því að svo verði gert.

Ég verð líka að segja að við eigum gríðarlega flott dæmi um hvernig samtakamátturinn getur haft jákvæð áhrif. Tökum sem dæmi verkefnið Inspired by Iceland, þar sem komu saman bæði opinberir aðilar og einkaaðilar og náðu í samtakamætti að búa til gríðarlega flott verkefni, sem laðar núna ferðamenn til landsins á hverjum einasta degi og yfir vetrarmánuðina líka, sem er frábær niðurstaða, hversu mikil aukning hefur verið yfir vetrarmánuðina.

Nýtum nú sambærilega hugmyndafræði og nýtum samtakamáttinn til að ná niðurstöðu í því hvernig við getum byggt upp innviðina sem ferðamenn sem koma hingað vegna þessa markaðsátaks njóta. Við getum það alveg. En það snýst þá bara um að forustumaður málaflokksins, hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir, kalli til aðila, þvert á pólitíska flokka, (Forseti hringir.)þvert á ólíkar greinar innan ferðaþjónustunnar, og setji þá niður við sama borð og fái þá til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er hægt, (Forseti hringir.)ég trúi því, og ég býð fram okkar krafta.