144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:32]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við búum hérna á Íslandi og höfum gert, íslenska þjóðin, frá því að við urðum til og barátta okkar í gegnum aldirnar hefur ekki síst gengið út á það að viðhalda landinu og haga búsetu okkar þannig að hún sé sjálfbær. Þetta stóra háflókna nútímasamfélag okkar á Íslandi er alla daga að berjast við að ná sátt við landið og koma í veg fyrir að við eyðum landinu og eyðum umhverfinu sem við búum í.

Nú er svo komið að ferðaþjónustan er ekki aðeins orðin stærsta atvinnugrein landsins, og þar af leiðandi mjög mikilvæg í atvinnuumhverfinu okkar og efnahagnum, heldur er umferð ferðamanna og ferðamennska líka orðinn einn af stóru álagspunktunum á þetta viðkvæma land sem við búum í dag, á meðan við bíðum eftir næstu kynslóðum. Ég held því að það sé mjög mikilvægt, og ég vil taka undir með hv. þingkonu hér á undan og fulltrúa Samfylkingarinnar, að við náum þverpólitískri umræðu og helst þverpólitískri sátt um að við sköpum ferðaþjónustunni lífvænlega og sjálfbæra ramma til þess að greinin vaxi en ekki síður svo að hún verði landinu ekki til trafala. Við höfum dæmi um það að við Íslendingar höfum náð saman, (Forseti hringir.) þvert á allt, í málefnum skógræktar, landgræðslu o.s.frv. og mér finnst mikilvægt að við náum okkur upp úr hvaða pólitísku skotgröfum sem er (Forseti hringir.) til þess að gera slíkt hið sama í þessu máli.