144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[11:59]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Í hinum fullkomna heimi eru öll dýrin í skóginum vinir og enginn gengur á rétt annarra. Því miður lifum við ekki í fullkomnum heimi. Við erum stöðugt að setja lög sem skilgreina hvað má og hvað ekki, skyldur manna og rétt.

Kennitöluflakk hefur verið þjóðaríþrótt Íslendinga í langan tíma, að stofna fyrirtæki, taka út úr þeim eignir, setja í þrot og skilja eftir sig sviðna jörð.

Kennitöluflakk er ekkert einkamál. Þessir aðilar skilja eftir sig skuldir sem hafa bein áhrif á ríkissjóð, önnur fyrirtæki og einstaklinga. Eitt gjaldþrot getur leitt til gjaldþrots hjá öðru fyrirtæki. ASÍ hefur metið skaðann vegna kennitöluflakks á 50 milljarða á ári. Sömu aðilar hafa sett tugi fyrirtækja í þrot á liðnum árum, þeir stofna alltaf ný, oft með hjálp svokallaðra útfararstjóra sem taka að sér að fara í stjórn fyrirtækja rétt fyrir þrot þeirra. Eiginlegir eigendur eru hvítþvegnir þar sem kennitala þeirra kemur hvergi nálægt gjaldþrotinu.

Fyrir rúmu ári birtist frétt á RÚV þar sem fram kom að 142 einstaklingar hefðu verið í forsvari fyrir fimm eða fleiri fyrirtæki sem farið hafi í gjaldþrot. Í sömu frétt var tekið dæmi af manni sem hafði stofnað 17 fyrirtæki á stuttum tíma. Tíu þeirra höfðu lent í árangurslausu fjárnámi eða gjaldþroti. Fyrirtæki mannsins skulduðu tugi milljóna í aðflutningsgjöld. Í samtali við RÚV sagðist þessi sami maður gera þetta með vilja. Hann ætlaði ekki að borga aðflutningsgjöld. Þannig gæti hann boðið vörur á lágu verði og staðið í samkeppni.

Það kom fram í ræðu minni í gær að tveir einstaklingar hefðu stýrt tæplega 50 fyrirtækjum í gjaldþrot á nokkrum árum, jafnvel úr fangelsi. Skattrannsóknarstjóri segir að það sé glufa í lögunum. Þeir sem töluðu á undan mér fóru yfir mögulegar aðgerðir, hvað hægt væri að gera, og þarf ég ekki að endurtaka það. Þetta eru nefnilega engin geimvísindi og ég hvet ráðherra til að skoða þessi mál vel og hvað gert hefur verið í öðrum löndum vegna þess að þar hefur verið tekið á þessum málum.