144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[12:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um leið og ég held að ég verði að segja að mér finnst okkur hafa gengið ansi hægt með þetta. Ég rifja það upp að í nóvember 2012 var skipaður starfshópur sem skilaði ágætri greinargerð í febrúar 2013 og í framhaldinu var flutt frumvarp sem því miður dagaði uppi í nefnd sem tók á nokkrum þáttum á grundvelli þeirra tillagna. Mér vitanlega hefur síðan ekkert breyst eða neitt nýtt gerst í þeim efnum hvað varðar breytingu á lögum.

Auðvitað skilur maður að ráðherra telji þurfa að greina vandann og safna upplýsingum, en ég held að tilteknir hlutir liggi nokkuð ljóst fyrir að væri hægt að gera og væru til bóta. Þar var nefnt sérstaklega að tryggja betur upplýsingagjöf um kynjahlutföll í stjórnum þannig að þau lög séu uppfyllt, að ársreikningaskilin komist í betra horf þótt þar hafi vissulega ákveðinn árangur náðst, að leggja ríkari upplýsingaskyldu á um þær upplýsingar sem komi í ársreikningum á hverjum tíma um eigendur, stjórnarmenn og annað í þeim dúr þannig að í gegnum betri ársreikningaskil komi jafnframt betri upplýsingar og alltaf liggi fyrir betri upplýsingar um það hverjir eru raunverulegir eigendur og stjórnendur á bak við hverja kennitölu.

Þessu til viðbótar er að færa til hlutafélagaskrár eða fyrirtækjaskrár, heimildir til að slíta félögum og leggja sektir á vegna ársreikningaskila. Ákvæði um að það sé í höndum ráðherra er alveg óvirkt.

Að lokum held ég að ekki verði undan því vikist að hlutafélagaskrá eða fyrirtækjaskrá hafi sterkari heimildir til að láta stjórnarmenn, stjórnendur og eigendur standa ábyrga fyrir því að ársreikningum sé skilað sem og réttum upplýsingum o.s.frv. og fara þar svipaðar leiðir og farnar eru bæði í Danmörku og Noregi.

Í frumvarpinu sem kom fram í mars 2013 var tekið á nokkrum þessara þátta og ég spyr hæstv. ráðherra: Er eitthvað (Forseti hringir.) því til fyrirstöðu, samtímis því sem málið er þá skoðað áfram að öðru leyti, að lögtaka (Forseti hringir.) þó þær breytingar sem ég held að menn séu sæmilega sammála um að væru til bóta?