144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[12:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp hér til sérstakrar umræðu, ekki síst til að glöggva okkur á því hvernig gengur með vinnu hæstv. ráðherra og áform ríkisstjórnarinnar um að ráðast gegn kennitöluflakki og ræða hér fyrirhugaðar leiðir í því.

Sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að ráðast gegn slíkri iðju er greyptur í stjórnarsáttmálann, meðal annars í þeim tilgangi að jafna samkeppnisstöðu. Að auki tapa, eins og komið hefur fram í umræðunni, lánveitendur og ríkissjóður háum fjárhæðum og kjör launafólks eru skert af þessum sökum.

Það er mikill samhljómur í tali okkar hv. þingmanna um að þetta sé vá í íslensku viðskiptalífi. Það berst sannarlega ákall, bæði úr viðskiptalífinu og frá samtökum fyrirtækja og launþega, um að takast á við þennan vanda. Málið hefur reglulega komið upp í umræðunni hér á þingi og fjölmargir hagsmunaaðilar hafa lagt þessu lið og bent á vandamálin, óhagræðið sem hlýst af slíku athæfi, og leiðir. Þó er mikilvægt að hafa í huga að fyrirtæki geta lent í rekstrarvanda sem að lokum leiðir til gjaldþrots án þess að um ólögmætt atferli sé að ræða.

Það er ýmislegt í annarri löggjöf sem heimilar eða gefur möguleika á að takast á við þennan vanda. Ég vil styðja og taka undir margar af þeim leiðum sem hafa komið upp. Það þarf að ræða umfang vandans en eftir situr alltaf að áreiðanleikakannanir þurfa að vera vandaðar, hið opinbera þarf að ganga fram fyrir skjöldu með opinber kaup og útboð, ábyrgð lánastofnana er mikil (Forseti hringir.) og svo ábyrg hugsun þegar upp er staðið.