144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna hér og vonast til þess að fá svör við því í síðari ræðunni hvaða tímasetningar við erum að horfa á varðandi þessa vinnu.

Jafnframt vil ég þakka þeim hv. þingmönnum sem blönduðu sér í umræðuna. Það er mikilvægt að við fylgjumst vel með framvindu þessara mála til að takast á við þennan vanda og svo þegar ráðherrann leggur fram sín þingmál, þegar þar að kemur, að við séum í stakk búin til að afgreiða þau í gegnum þingið hratt og vel en þó af ábyrgð.

Það eru margar leiðir færar, það þarf að gæta að því að ganga ekki of langt í þá átt að takmarka frelsi einstaklinga til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Við megum ekki koma með þannig leiðir að við reynum að drepa húsflugu með fallbyssukúlu. Engu að síður tel ég best að reyna að skoða leiðir sem fela í sér að auka ábyrgð eigenda gagnvart opinberum gjöldum. Jafnframt tel ég álitlegt að kanna þann möguleika að auka skattalegt hagræði af því að hafa félagið í öðru formi, þ.e. sameignarfélag eða samlagsfélag. Ég vonast sannarlega til þess að það sé hluti af því sem verið er að skoða í ráðuneytinu en í þeim félögum bera eigendur beina og óbeina ábyrgð á skuldbindingum félaganna.

Ég hlakka einfaldlega til að takast á við þetta verkefni þegar það kemur inn í þingið og hvet hæstv. ráðherra, eins og aðrir þingmenn hér í umræðunni, til dáða í þessum efnum.