144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[12:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég stend hér í fjarveru framsögumanns þessa máls, hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, en í umræðunni í gær þegar hv. þingmaður mælti fyrir nefndaráliti nefndarinnar voru ákveðnar efasemdir uppi um álitið, hvort það væri villa í því. Það er rétt að koma hér upp og upplýsa að þingskjalið er rétt. Jafnframt er rétt að það komi fram þær upplýsingar að frá árinu 2010 hafa fulltrúar vinnuveitenda- og launþegasamtaka á hinum opinbera og almenna vinnumarkaði rætt um breytingar á heildarfyrirkomulagi lífeyrismála. Almennur stuðningur er við það markmið að sköpuð sé ein heildstæð umgjörð um lífeyrissjóðina þar sem kjör og réttindi séu í meginatriðum sambærileg óháð stéttarfélagsaðild og byggð á aldurstengdum réttindaávinningi og samræmdum lífeyristökualdri.

Á hinn bóginn hafa stéttarfélög á opinberum markaði sett fram skilyrði og forsendur fyrir endurskoðun lífeyrismála félagsmanna sinna, sem að þeirra mati þarf að bregðast við áður en gengið er frá breytingum á heildarfyrirkomulagi lífeyrismála. Vegna þessa hafa frá 2011 verið í gangi sérstakar viðræður milli vinnuveitenda, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, og samtaka launþega hins vegar, BHM, KÍ og BSRB, á opinberum vinnumarkaði um sértækar breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála þeirra.

Í almennu nefndinni eru aðilar sammála um eftirfarandi grundvallarforsendur:

Í fyrsta lagi að skapa sjálfbært samræmt lífeyriskerfi sem byggi á skylduaðild til framtíðar fyrir íslenskan vinnumarkað.

Í öðru lagi: Sátt er um að áfram verði byggt á þriggja stoða kerfi, þ.e. almannatryggingum, lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði.

Í þriðja lagi að launafólk geti vænst þess að fá í lífeyri u.þ.b. 76% af meðalævitekjum. Það viðmið byggir á því að um sé að ræða lífeyrissjóð með 10 þús. greiðandi sjóðfélaga þar sem greitt sé 15,5% iðgjald af heildarlaunum í aldurstengda réttindaávinnslu í 40 ár, að raunávöxtunarviðmið sé 3,5%, að lífeyristökualdur sé endurmetinn reglulega með hliðsjón af breyttum lífslíkum auk annarra tryggingafræðilegra og rekstrarlegra forsendna.

Að baki þessum forsendum eru bæði sjálfstæðar rannsóknir og erlendar fyrirmyndir.

Þó að aðilar séu sammála í grundvallaratriðum er ekki þar með sagt að það sé algjör sátt um alla þætti útfærslu þeirra. Þau álitaefni eru hins vegar ekki þess eðlis að þau ráði úrslitum um heildarmyndina. Því er fyrst og fremst eftir smávægileg vinna við orðalagsbreytingar en hún ætti að ganga fljótt fyrir sig.

Á 43. fundi starfshópsins 23. ágúst síðastliðinn lágu fyrir drög að skýrslu sem aðilar voru efnislega sammála um, en talsmenn opinberu starfsmannanna voru ekki tilbúnir til endanlegs frágangs og undirskriftar fyrr en þeir hefðu séð til lands í því hvernig tilfærsla úr núverandi fyrirkomulagi lífeyrismála þeirra félagsmanna yfir í sambærilegt fyrirkomulag og nú gildir á hinum almenna vinnumarkaði liti út. Vegna þessa hafa, eins og áður sagði, verið í gangi sérstakar viðræður milli vinnuveitenda og samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði um þær sértæku breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála þeirra. Viðræðurnar beinast að nokkrum þáttum en það sem einkum eru skiptar skoðanir um eru í fyrsta lagi hvernig hægt sé að breyta réttindaávinnslu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga í átt að því sem gildir á hinum almenna vinnumarkaði, og í öðru lagi að við slíkar breytingar beri að leiðrétta þann launamun sem samtök opinberra starfsmanna telja vera fyrir hendi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

Viðræður þessar voru komnar þokkalega af stað seinni hluta árs 2013 en var frestað þegar viðræður um endurnýjun kjarasamninga í vetrarbyrjun 2013 hófust. Þær viðræður drógust fram á vor 2014 þannig að það er ekki fyrr en að loknum sumarleyfum sem þráðurinn er tekinn upp að nýju. Aðilar hafa sammælst um að skipta verkefninu í fjóra vinnuhópa auk þess að sett verði saman sérstakt sameiginlegt vinnuteymi sem sinni nauðsynlegri undirbúningsvinnu, svo sem að afla talnagagna og annarra nauðsynlegra upplýsinga, vinna tölfræðigreiningar og veita þá aðstoð og ráðgjöf sem einstaka hópar telja þörf á.

Eins hafa aðilar orðið ásáttir um að fela Hagstofunni að rannsaka launamun milli markaða og er þess vænst að þær niðurstöður liggi fyrir fljótlega. Með þessu vinnulagi er talið raunhæft að niðurstaða náist í umræðunni milli aðila fyrir næstu áramót.