144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:39]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísa aftur í svar mitt áðan um hlutverk hins opinbera í að tryggja innviði. Hv. þingmaður talaði um verksmiðju uppi á hálendi. Ég get nefnt aðra grein sem við ræddum hérna áðan, ferðaþjónustu. Tökum sem dæmi ferðaþjónustufyrirtæki á Kirkjubæjarklaustri. Það eru rök fyrir því að hafa hótel á Kirkjubæjarklaustri eða í dreifðum byggðum landsins, Vestfjörðum, Austfjörðum. Til þess að sú atvinnustarfsemi geti þrifist þar þarf að tryggja innviði. Það þarf að tryggja samgöngur, það þarf að tryggja rafmagn, það þarf að tryggja fjarskipti. Ég tel það vera okkar hlutverk að tryggja þetta eins vel og okkur er unnt, við munum aldrei ná 100% árangri í þessu á hvorn veginn sem er. Við eigum að tryggja það að menn sitji við sama borð og geti þá tekið ákvarðanir um (Forseti hringir.) hagkvæmni atvinnurekstursins út frá sambærilegum viðmiðum.