144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrra andsvari mínu ætla ég að gera að umtalsefni það sem vinstri höndin er að gera hjá hæstv. ráðherra og það sem hægri höndin er að gera þegar hún situr í ríkisstjórn. Ég hef áður rætt það að með breytingum á virðisaukaskattinum, þar sem rafmagn og hiti hækkar í virðisauka upp í 12% eins og boðað er, þá mun það hafa í för með sér allt að 9 þús. kr. hækkun á ári í dreifbýli, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Grundarfirði og fleiri stöðum svo að dæmi séu tekin. Mér sýnist því að sú lækkun sem hún er að boða hér með hækkun á alla aðra þýði að dreifbýlið muni koma út á núlli á næsta ári.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getur ráðherra komið í ræðustól Alþingis og sagt að þetta sé lækkun upp á 20 þús. kr.? Ég ítreka það sem ég sagði áðan að á næsta ári, vegna þess að bara helmingurinn á að taka gildi, þá koma íbúar í dreifbýli út á núlli. Það verður engin lækkun.