144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar að auki er boðað að strax á næsta ári falli út þær 230 milljónir sem eru búnar að vera á fjárlögum frá 2005 til niðurgreiðslu og fullrar jöfnunar, eins og það átti að heita, á dreifingu raforku í dreifbýli. Það fellur þá niður þannig að mér sýnist að þegar dæmið verður gert upp á næsta ári muni íbúar í dreifbýli og á þeim stöðum sem fá mesta hækkun greiða meira en þeir gera í dag. Til hvers er þá farið af stað?

Hæstv. ráðherra talar um að nefndin geti bara skoðað þetta. Já, gott og vel, en hefði ekki verið betra að skoða þetta í samhengi?

Virðulegi forseti. Það sem ég er einfaldlega að benda á er að af frumvörpunum sem koma hingað í upphafi þings frá hæstv. ráðherrum að dæma virðist vinstri hendinni ekki vera ljóst hvað sú hægri er að gera.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í þverpólitíska nefnd sem var undir forustu sjálfstæðismanns á Vesturlandi sem lagði til að tekna yrði aflað með því að leggja jöfnunargjald á alla raforkunotendur, þar með talið stórnotendur og stóriðjuna. (Forseti hringir.) Hvað er til fyrirstöðu að fara þá leið?