144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi áform um jöfnun komu fram á síðasta þingi og áformin eru að sjálfsögðu þau að jafna þennan kostnað. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það verður að skoða þessi tvö mál í viðkomandi þingnefndum samhliða. Það er ekki svo einfalt að virðisaukaskattur á heitt vatn og rafmagn sé allur í neðra þrepinu. Það er einnig hin almenna raforkunotkun sem við þurfum að taka tillit til og hún er í efra skattþrepinu, efra virðisaukaskattsþrepinu og það lækkar, þannig að það vegur upp á móti.

Þetta er sannarlega flókið. Þess vegna, eins og ég ítrekaði í ræðu minni, hvet ég hv. atvinnuveganefnd til þess að skoða málið og fara vandlega yfir það. Í ljósi vinnu nefndarinnar sem fram undan er og niðurstöðu hennar munum við eftir atvikum taka ákvarðanir. Ég lýsi því sem vilja mínum að þessi kostnaður sé jafnaður á milli dreifbýlis og þéttbýlis og að landsmenn allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Við verðum að skoða í samhengi við þessa vinnu hvernig við getum sem best tryggt það.