144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er góðra gjalda vert að nefndirnar skoði þetta vel og þær gætu svo sem að einhverju leyti unnið saman að mati á þessum þætti málsins, þ.e. áhrifum virðisaukaskattsbreytinganna á orkumálin og svo aftur jöfnunargjaldsfrumvarpið sem fer til atvinnuveganefndar. En það skiptir líka máli að menn viti hvaða pólitískt umboð er til þess að vinna einhverjar breytingar á málunum. Mér sýnist að þetta sé nú ósköp einfalt, við þurfum ekki að þvæla það mikið fyrir okkur.

Spurningin er einfaldlega þessi: Eru menn tilbúnir til þess að hækka jöfnunargjaldið eitthvað til þess að reyna að ná fram sömu markmiðum og til stóð áður en áformin um hækkun virðisaukaskatts komu fram? Það virðist vera ósköp einfalt, það er þá það sem þarf til. Það þarf meiri tekjuöflun innan kerfisins til þess að vega upp á móti því sem nemur að hækkun virðisaukaskattsins kemur verr (Forseti hringir.) niður eftir því sem orkuverð eða væntanlegt útsöluverð er hærra, ekki satt, og það er í dreifbýlinu. Þess vegna þarf augljóslega aðeins hærra jöfnunargjald (Forseti hringir.) til að ná sömu jöfnunarmarkmiðum.