144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur hér flutt er endurflutningur á máli frá í fyrra sem náðist ekki að klára, um að breyta lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég hef ávallt talað fyrir því að það sé mikil þörf á að jafna raforkukostnað landsmanna þannig að ekki sé sá stóri munur á sem er milli dreifbýlis og þéttbýlis, eða við skulum segja líka bara landsbyggðarinnar að stórum hluta, þó með ákveðnum undantekningum á nokkrum orkusvæðum, gagnvart höfuðborgarsvæðinu.

Ég gat um það áðan að eftir að frumvarp um breytingar á virðisaukaskatti kom fram hefur það verið reiknað út að orkureikningur heimilanna á höfuðborgarsvæðinu muni hækka um 3.500 kr. við þessa breytingu á virðisaukaskattinum. Svo dæmi séu tekin úr þessu úrtaki eru Grundarfjörður, Ísafjörður, Höfn í Hornafirði og allt dreifbýlið með hækkun upp á einar 8.600 kr.

Það er það sem ég er að gera hér að umtalsefni, að hin göfugu markmið í þessu frumvarpi eru algjörlega tekin út í frumvarpi fjármálaráðherra um hækkun virðisaukaskatts á raforku og heitt vatn á fjölmörgum stöðum á landinu. Það kemur eins og vant er verst niður á fjölmörgum aðilum á landsbyggðinni sem borga háa orkureikninga í dag. Dreifbýlið borgar í kringum 330 þús. kr. á ári meðan höfuðborgarsvæðið er með 185 þús. kr.

Það er sannarlega göfugt markmið að reyna að finna leiðir til að jafna raforkukostnað landsmanna líkt og við höfum gert á svo mörgum öðrum sviðum. Hæstv. ráðherra nefndi í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal símakostnað, sem var jafnaður út á sínum tíma, en hann var misjafn eftir því hvort hringt var frá Siglufirði til Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Siglufjarðar. Munaði miklu þar á.

Það er mikið talað um mjólk í dag, með mikið norðlenskum hreimi. Þar er líka jöfnun flutningskostnaðar og sama verð á mjólk um land allt. Það má taka ýmis fleiri atriði hvað þetta varðar. Þess vegna eru það mér vonbrigði að í þessu frumvarpi með þetta markmið hverfur ávinningurinn fyrir fólk í dreifbýli á næsta ári algjörlega. Hér stendur um mat á áhrifum frumvarpsins að raforkukostnaður í dreifbýli lækki um 730–890 kr. á mánuði. Ég minni á töluna sem ég nefndi varðandi virðisaukaskattinn, þetta er nánast á núlli. Lækkunin hjá íbúum í dreifbýli eins og boðuð er í þessu frumvarpi verður engin, hún verður núll.

Það er það sem ég segi og sagði líka hér í umræðunni um virðisaukaskattinn, hér er ekki inni nein mótvægisaðgerð eins og hæstv. ríkisstjórn gumar af við fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti, að þetta eigi allt saman að koma betur út fyrir alla. Hér hef ég nefnt eitt algjörlega kristaltært dæmi um að þetta hverfi vegna þessara tveggja frumvarpa. Þess vegna eru þetta mér mikil vonbrigði og ég verð að segja alveg eins og er að það sem kemur fram í þessu frumvarpi, bæði frá fjármálaráðuneytinu og annars staðar, er að þetta er bara sett alveg kristaltært hérna niður.

Þetta mun þar að auki hækka kostnaðinn hjá íbúum í þéttbýli miklu meira af því að eingöngu íbúar í þéttbýli leggja í þennan sjóð með fallega nafninu, jöfnunarsjóðinn. Þá mun þetta hafa hækkun í för með sér hjá þeim sem eru í þéttbýli og hafa áhrif á vísitölu neysluverðs, eins og kom fram í umsögnum fjölmargra aðila á síðasta þingi um frumvarpið. Þeir aðilar fá á sig þennan raforkuskatt ríkisstjórnarinnar plús hækkun virðisaukaskatts. Þeir fá þannig á sig miklu meiri hækkun en hér er nokkurs staðar fjallað um. Þess vegna get ég ekki annað en bæði lýst vonbrigðum og gagnrýnt það sem hér er sett fram.

Virðulegi forseti. Þar að auki eykst kostnaðurinn hjá þeim sem hita híbýli sín með rafmagni út af þessum raforkukostnaði vegna jöfnunargjalds. Tökum dæmi af því að Orkuveita Suðurnesja — nei, hvað heitir það? (Gripið fram í: HS?) HS Veitur, fyrirgefið, það er von að maður ruglist aðeins á þessum nöfnum. Í umsögn þeirra á síðasta ári tóku þeir dæmi um upphitunarkostnað Vestmannaeyinga. Af því að Vestmannaeyjar eru í kjördæmi hæstv. ráðherra er ágætt að rifja upp að þetta orkufyrirtæki gagnrýndi mjög þá leið sem verið væri að fara og sagði beinlínis að vegna þessarar hækkunar rafveitunnar mundi orkukostnaður hjá Vestmannaeyingum hækka mjög mikið. Fjarvarmaveitan þar kaupir til sín raforku og mun greiða hærra verð og niðurgreiðslurnar verða ekki eins miklar þannig að það getur auðvitað ekki farið út í verðlagið.

Eins miklir útreikningar og hér koma fram segja þeir ekkert beinlínis um lækkun í dreifbýli á móti hækkunum vegna virðisaukaskatts sem hverfur. Ég get ekki sagt það í beinum tölum en ég minni á þá umsögn sem kom fram um að orkukostnaður þeirra aðila sem rafhita hús sín muni aukast umfram það sem við erum að tala um hér.

Þar að auki, virðulegi forseti, hefur ríkisstjórnin áform um að taka burtu þessar litlu 230 milljónir sem eru búnar að vera óbreyttar frá 2005 og hafa ekki hækkað nema að mig minnir einu sinni í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þarna ætlar ríkissjóður sem sagt hreinlega að taka þessar 230 milljónir út og taka bara inn í sín fjárlög til að þær verði hluti af því að sýna hallalaus fjárlög þó að við sjáum að hallalaus fjárlög verða eingöngu með því að hækka álögur á íbúa eins og fram hefur komið á fjölmörgum sviðum, sama hvort það er í heilbrigðisþjónustu eða menntakerfinu. Þetta mun hafa slæm áhrif og mér finnst slæmt að hið göfuga markmið um jöfnun raforkukostnaðar skuli vera með öllum þessum annmörkum hér við 1. umr. þingsins.

Ég skal leggja mitt lóð á vogarskálarnar, virðulegi forseti, sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd og taka þetta frumvarp eins og mér finnst ráðherrann skora á okkur að gera, og kannski bara koma með algjörlega nýjar tillögur. En ég spyr þá: Mun hæstv. ráðherra bakka okkur upp í því að koma með nýjar leiðir sem ganga betur fram og koma betur til móts við þá sem við ætlum að lagfæra raforkukostnaðinn hjá?

Ég ætla ekki að ræða þetta öllu lengur hér. Ég ræddi það við 1. umr. síðast þegar það kom fram en nú eru komnir inn nýir annmarkar varðandi virðisaukaskattsbreytinguna.

Ég ætla aðeins í lokin, virðulegi forseti, að nefna eitt dæmi sem hefur miklu meiri lækkun í för með sér en hér er boðað. Það er lítið frumvarp sem var samþykkt í vor og ég var 1. flutningsmaður að ásamt með mörgum öðrum þingmönnum sem var um það að fella niður virðisaukaskatt á varmadælum. Það var samþykkt sem betur fer, virðulegi forseti. Ef fleiri og fleiri taka upp varmadælur er það liður í því að orkunotendur á þessum köldu svæðum geta lækkað raforkukostnað sinn um allt að helming, auðvitað ekki allt út af virðisaukaskattsafléttingunni heldur líka út af því sem felst í þessum tækjum. Þetta segi ég vegna þess að það eru tveir aðilar sem ég þekki vel til austur í Neskaupstað sem eru búnir að vera með þetta lengi og hafa haldið gott bókhald og þar er hægt að sýna fram á 60% lækkun upphitunarkostnaðar við það að nota varmadælur.

Það skal því haft í huga að sú ákvörðun Alþingis frá síðasta vori að samþykkja það frumvarp mitt og annarra þingmanna getur haft miklu meiri áhrif en orðið er. Hún hefur önnur jákvæð áhrif vegna þess að þeir viðkomandi aðilar sem þetta gera leggja út í töluverðan kostnað til að koma þessu upp hjá sér og niðurgreiðsla ríkisins til þeirra lækkar og þá verður meira til fyrir hina.

Það eru margar hliðar á þessu máli og ég vildi ræða aðalvankantana sem mér finnst á þessu sem ég hef gert að umtalsefni.

Þar að auki vil ég nefna eitt í lokin sem ég spurði hæstv. ráðherra út í hér í andsvari, tillögu hinnar þverpólitísku nefndar sem vann í tíð síðustu ríkisstjórnar og skilaði tillögum til ráðuneytisins um hvernig skyldi fara í að afla tekna í jöfnunarsjóðinn. Sú nefnd sem var, eins og ég segi, undir forustu sjálfstæðismanns á Vesturlandi, sveitarstjóra þar, skilaði tillögu um að þetta skyldi lagt á alla. Að mínu mati eru engin vandkvæði á því að gera það ef jafnt er lagt á alla og við mismunum ekki einni stóriðju á móti annarri eða einum stórnotanda á móti öðrum. Ef þetta er kristaltært og gengur yfir alla er það fær leið. Þess vegna mun ég í atvinnuveganefnd kalla eftir því frá ráðuneytinu og öðrum að þetta mál verði skoðað.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að á erfiðaleikaárum okkar á síðasta kjörtímabili þar sem síðasta ríkisstjórn tók við gjaldþrota ríkissjóði og þurfti að fara í miklar skattahækkanir og lagfæringar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, sem núverandi ríkisstjórn býr að, þeirri vinnu, var lagður á orkuskattur, að vísu með samkomulagi við alla sem gefur, að mig minnir, einar 1.200 millj. kr. Sá skattur á að leggjast af um áramótin 2015/2016. Ég hef sagt: Er ekki ástæða til að kanna hvort hægt sé að framlengja þennan skatt með samkomulagi? Þá þurfum við ekki að fara í þetta bix sem hér er lagt til og við myndum einn stóran og öflugan jöfnunarsjóð á dreifingu raforku, á niðurgreiðslu húshitunar og þessum þáttum sem okkur langar svo öll að taka þátt í að jafna betur en gert er í landinu í dag.