144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mig langar að bæta nokkrum orðum við í umræðum um þetta mál í framhaldi af því sem var nú tekið fyrir í andsvörum milli mín og ráðherra. Ég hef ekki miklu við það að bæta. Það liggur nokkuð skýrt fyrir að fara þarf vel yfir það hvaða áhrif boðuð hækkun virðisaukaskatts á neðra þrepi hefur ef af verður á þessar lífsnauðsynjar, rafmagn og hita. Ef menn ætla sér að ná upprunalegum jöfnunarmarkmiðum fram þarf greinilega að laga fjárhæð jöfnunargjaldsins að þessum nýja veruleika.

Menn hafa rætt hér um mikilvægi þess að landsmenn búi við sem jöfnust kjör að þessu leyti. Ég held að það verði nú tæplega færð fram sterk rök gegn því að jafn miklar grundvallarnauðsynjar og það er að hafa ljós og hita í híbýlum sínum; að það sé ákaflega nærtækt svið að horfa til þess að reyna að tryggja að þjóðin búi við sem jöfnust kjör að því leyti alls staðar í landinu.

Það má líka taka útgangspunkt í því að við lítum gjarnan svo á að orkuauðlindirnar séu með verðmætustu sameiginlegu auðlindum þessarar þjóðar og tilheyri henni sameiginlega og menn hafi vissan rétt sem þegnar í landinu, íbúar landsins, gagnvart því. Það stendur þá upp á stjórnvöld að sjá til þess að fyrirkomulag mála varðandi nýtingu þessara auðlinda sé með þeim hætti að jöfnuður náist fram.

Þetta frumvarp er að sjálfsögðu til bóta út frá þeirri stöðu sem uppi hefur verið og út frá þeim takmörkuðu fjármunum sem menn hafa haft til að leggja beint af fjárlögum til að jafna annars vegar flutningskostnað og hins vegar húshitunarkostnað þar sem enn er notast við rafmagn. Ég vil taka skýrt fram að þetta er ekki að mínu mati það besta fyrirkomulag sem hægt væri að hugsa sér í þessum efnum, fjarri fer. Það er bara þessi hluti raforkunotkunarinnar sem er andlag jöfnunarinnar og þeir sem greiða fyrir dreifingu á raforkunni í dreifikerfum. Langbesta fyrirkomulagið væri að nálgast þetta út frá sjónarhóli auðlindarinnar og tryggja með lögum að markmiðum af þessu tagi væri sjálfkrafa náð fram í gegnum þau afgjöld sem eðlilegt er að allir sem fá að nýta þessa takmörkuðu auðlind greiði.

Nú hef ég heyrt hæstv. ráðherra færa fram þá málsvörn að stóriðjan sé ekki aðili að flutningskerfinu þegar komið er niður á dreifistigið og kaupi sína raforku í heildsölu beint í gegnum stórflutninginn. Það breytir engu um það að hún er að nýta auðlindina. Ef við lítum svo á að við værum að ákveða að einhver hluti arðsins, sem sprettur af hvers konar nýtingu þessarar verðmætu auðlindar, gengi í það að tryggja markmið stjórnvalda um jöfnun þá er tiltölulega einfalt að sjá hvernig menn gætu komið því fyrir með einhvers konar auðlindagjaldtöku sem legðist á alla nýtingu auðlindarinnar.

Vandinn er að einhverju leyti sá, og menn þekkja það sem hafa staðið í því, að orkusalan er bundin í samningum til mismunandi langs tíma, sumir nýlegir, aðrir gamlir, og menn voru kannski ekki forsjálir þegar þeir gerðu þessa samninga, sérstaklega hér á árum áður, vegna þess að í þeim eru alls konar varnarákvæði fyrir hönd kaupendanna. Þeir eru sumir hverjir ansi vel varðir fyrir því að hægt sé að hrófla við stöðu þeirra á einn eða neinn hátt.

Þá er að minnsta kosti að mínu mati tímabært að sýna fyrirhyggju. Ég nefni þetta hér vegna þess að ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég held að setja eigi lög sem horfa fram í tímann og skylda alla sem gera samninga um sölu á orku til að hafa inn í þeim samningum ákvæði sem fela í sér að opið sé fyrir einhverja samræmda upptöku auðlindagjalda, einhvers konar orkugjalds eða auðlindagjalds sem tengist nýtingu orkuauðlindanna. Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir það hvernig því er fyrir komið, bæði gagnvart raforku og jarðhita.

Sem aftur leiðir væntanlega til þess að þegar samningar verða endurnýjaðir um orkusölu á komandi árum, hvort sem slíkt gjald verður þegar komið á eða er í undirbúningi, þá munu framtíðarsamningar ekki koma í veg fyrir að hægt sé að koma því við. Nú er það þannig að strax á árunum 2018 til 2020, 2022 eða 2024 koma stórir samningar upp til endurnýjunar þannig að það þarf að huga að þessu í tíma, t.d. mikið af samningum á Grundartanga. Þetta er algerlega nauðsynlegt að gera því það er óásættanlegt að löggjafinn geti ekki náð fram einhverjum markmiðum af þessu tagi vegna gamalla samninga.

Gott og vel. Ef ekki finnast leiðir til að ná því inn yfir þá er alla vega hægt að tryggja að það verði hægt í framtíðinni. Það er það sem þarf að gera; að það verði ekki gerðir frekari svona samningar um sölu á orku í stórum stíl til iðnaðarnota eða hvað nú er öðruvísi en það sé algerlega tryggt að menn séu ekki varðir í þeim fyrir einhvers konar samræmdri málefnalegri auðlindagjaldtöku. Þá er tiltölulega auðvelt að leysa þetta með fjármunum sem mundu annars vegar verða eðlilegur tekjustofn þar sem þjóðin fengi hlutdeild beint og strax á fyrsta stigi í rentunni sem af nýtingunni sprettur og hins vegar gætum við notað einhvern hluta þeirra fjármuna í verkefni af þessu tagi og þyrftum ekki að bögglast með jöfnunarkerfi innan dreifikerfisins eins eða eitthvað því um líkt. Við gætum tryggt það með fjármunum af slíku auðlindagjaldi að við hefðum úr nægum fjármunum að spila til þess að ná fram svona jöfnun.

Varðandi stöðuna sem snýr beint að þessu frumvarpi vil ég líka nefna það að í frumvarpinu er því slegið föstu að árið 2016 falli þeir fjármunir sem verið hafa á fjárlögum beint úr ríkissjóði niður, þessar 240 millj. kr. Betra hefði mér nú þótt að það væri að minnsta kosti skilið eftir opið. Ég nefni hið augljósa, finnst mér, af hverju er þá ekki ákveðið að um leið og jöfnunargjaldið dugar orðið nokkurn veginn til að ná fram þessum markmiðum um jöfnun dreifikostnaðar færist þessir fjármunir yfir í niðurgreiðslu húshitunarkostnaðarins beint, þannig að þessar 240 milljónir færðust yfir á hinn liðinn, þ.e. að við ykjum niðurgreiðslur á húshitun með rafmagni.

Ég vil líka í þessu sambandi nota tækifærið og minna á mikilvægi þess að menn slái ekki slöku við að öðru leyti. Ég nefni þar sérstaklega áframhaldandi jarðhitaleit á köldum svæðum og hitaveituvæðingu. Auðvitað blasir það við að þetta verður léttari og léttari róður með hverju nýju svæði sem færist af rafhitun yfir á hitaveitu. Jafnvel þótt ríkið setji umtalsverða fjármuni með í þá stofnfjárfestingu, í formi ígildi niðurgreiðslna á rafhitun í átta, tíu ár eða hvað það nú er orðið núna, er það góð fjárfesting, kemur vel út fyrir báða aðila, því ríkið er þá laust undan niðurgreiðslunum að þeim tíma liðnum sem annars hefðu haldið áfram í miklu dýrari rafkyndingu. En mestu skipta þó þau gríðarlegu hlunnindi sem það eru og sú mikla breyting sem það er í hverju byggðarlagi sem fær kost á því að vera með hitaveitu, heitt vatn, til svo fjölmargra annarra nota en húshitunarinnar einnar.

Það hefur vissulega svolítið miðað í þessum efnum. Má þar nefna Skagaströnd, Kjósina og verkefni sem hafa verið í skoðun eins og á Höfn og í Tálknafirði. Auðvitað gengur þetta ekki alltaf eins vel og menn vonuðust eftir. Sums staðar gengur vel og menn hitta á nóg vatn eða það reynist hagkvæmt að leiða það um lengri veg, en í öðrum tilvikum er þetta meira bras, en það á ekki að hafa nein áhrif á það að menn eiga að halda þessu áfram. Það væri til dæmis veruleg breyting ef það stóra svæði, Höfn og Nesin og allt það svæði, færðist yfir á hitaveitu; þá dytti út eitt stærsta þéttbýlissvæðið sem enn er hitað með rafmagni, eða eitt af stærri þéttbýlissvæðunum sem enn er hitað með rafmagni í landinu.

Ég nefni Grímsey þar sem menn eru enn að framleiða rafmagn með olíu sem auðvitað er eitthvað sem við eigum að reyna að stefna að að hverfi á næstu árum. Það á að mínu mati að vera alveg sérstakt forgangsverkefni að fara í málin á þeim stöðum þar sem þannig háttar enn til og velja vænlegustu kostina til að leysa innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi með innlendum orkugjöfum. Mér sýnist nú í tilviki Grímseyjar augljóst að þar á einfaldlega að halda áfram að leita að heitu vatni. Það er þar. Það er alveg augljóst mál að það er nægur hiti. Jarðhitastigullinn í Grímsey er meira en nógu hár til þess að það eru yfirgnæfandi líkur á því að þar finni með áframhaldandi leit heitt vatn.

Í öðrum tilvikum getur verið vænlegra að styðja menn til að fara í heimavirkjanir þannig að hægt sé að fara í rafhitun á grundvelli endurnýjanlegrar orku sem fæst úr staðbundinni virkjun. Það má nefna glæsilegan árangur í Möðrudal á Fjöllum þar sem er heimarafstöð sem leysti af hólmi dísilstöð sem var kynt með stuðningi frá ríkinu. Svipaða möguleika kynni að vera hægt að beisla á Grímsstöðum á Fjöllum og á nokkrum fleiri stöðum þar sem svona háttar enn til.

Ég vil bara leyfa mér að nefna þetta inn í þetta samhengi vegna þess að það vill oft gleymast að við erum að glíma við afleiðingar þess að því miður er ekki öll svæði landsins og allir landsmenn svo heppnir að búa enn sem komið er að því að njóta góðs af hitaveitum. Þeim mun færri sem eftir verða í þeim hópi þeim mun betra, bæði frá kostnaðarlegum sjónarhóli og svo í ljósi þeirra hlunninda sem því fylgja fyrir hina sem komast inn á hitaveitusvæði.

Ég vona að hæstv. ráðherra sé líka sama sinnis í þeim efnum að óháð þessu máli eigi ekki að slá slöku við hvað varðar áframhaldandi viðleitni til að vinna jafnt og þétt á þessum vanda; með hverjum þeim ráðum sem vænlegust eru hverju sinni.

Varmadælur hafa verið nefndar enda miklir áhugamenn um það mál hér í þinginu eins og kunnugt er. Þær eru að sjálfsögðu góð lausn í þessum skilningi séð þó á það megi auðvitað benda að í sjálfu sér er það ekki orkuskortur sem veldur vanda okkar, heldur meira spurningin um að hún sé verðlögð á réttan hátt og við jöfnum út þann aðstöðumun sem felst í dreifðri búsetu o.s.frv.

Ég held að vel mætti færa fyrir því rök að við séum ekki að öllu leyti enn sem komið er að gera okkur allan þann mat úr þessum verðmætu auðlindum okkar eins og við gætum gert í tilviki orkuskipta eða til framleiðslustarfsemi. Oft er ylræktin nefnd í þeim efnum og sú staðreynd að hún gæti orðið að miklu umfangsmeiri stóriðju, jafnvel útflutningsgrein, hér í landinu ef hún hefði aðgang að ódýrari orku til lýsingar.

Þetta vildi ég nú leggja í púkkið í viðbót við það sem áður er komið fram, frú forseti, og á svo kost á því að fylgjast með því hvernig þessu vindur fram í nefnd eða nefndum. Það er út af fyrir sig rétt, sem hér hefur komið fram, að efnahags- og viðskiptanefnd og atvinnuveganefnd þyrftu að bera saman bækur sínar áður en þessi mál bæði verða afgreidd, það sem snýr að virðisaukaskattsfrumvarpinu annars vegar og þessu máli hér.