144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það mál sem hér um ræðir er ekki að öllu leyti laust við ágreining. Það hefur komið skýrt fram í umræðum um það að ýmsir þeir sem til dæmis búa í mínu kjördæmi eru ekki giska sáttir með þetta mál. Eðli þess er að það felur í sér að við sem búum í þéttbýlinu tökum þátt í því að greiða niður dreifingarkostnað á raforku til þeirra sem búa á köldum svæðum og í þéttbýli. Ég tel þess vegna að það sé mikilvægt að einhver úr þessum röðum komi og láti skoðun sína koma fram á þessu.

Ég vil segja það algjörlega skýrt, einmitt með tillit til þess úr hvaða kjördæmi ég kem, að ég er fylgjandi meginhugsuninni í frumvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að jafnan þegar við nálgumst málefni landsbyggðarinnar eigum við að gera það út frá hugtakinu jafnræði. Hvað eina sem hæstv. ríkisstjórn og Alþingi tekur sér fyrir hendur varðandi það að jafna aðstöðu millum íbúa landsins á að vera út frá því sjónarhorni, jafnræði. Ég er þeirrar skoðunar að hugsunin í frumvarpinu sé góð, hún miðar að því að auka jafnræði með landsbyggð og þéttbýli.

Nú er það svo að Íslendingar búa við þá gæfu að hafa tekist sameiginlega að byggja hér upp ákaflega gott orkukerfi í landinu. Við búum bæði við gríðarlegt afl úr fallvötnum, en á síðustu tímum hefur okkur líka tekist að beisla jarðhitann í þeim mæli að það skiptir verulega miklu. Íslendingar almennt geta stoltir sagst búa við þau gæði að hér á landi er að finna eitt lægsta orkuverð til heimila í allri Evrópu. Ég hygg að ef við lítum 10 ár aftur í tímann sjáist algjörlega skýrt að verð á orku til almennra notenda hefur að raunvirði lækkað. Það er jákvæð þróun.

Það má kannski segja að með þessum hætti, í gegnum orkuverðið, séu Íslendingar að taka út arð sinn af þeirri þjóðargersemi sem Landsvirkjun og Landsnet er.

Ég tel hins vegar, og það er mjög í anda þeirra hugsjóna sem ég stend fyrir í stjórnmálum, að réttlæti sé fólgið í því að fara þessa jöfnunarleið. Þess vegna segi ég það að að ýmsu öðru uppfylltu hygg ég að ég gæti vel fallist á að styðja þetta frumvarp. Þó vil ég slá tvo varnagla. Í fyrsta lagi er þetta sagt á þeirri forsendu að frumvarpið leiði ekki til verðlagsáhrifa þannig að þetta tosi upp vísitöluna og þar með lán landsmanna. Þetta er fullyrt í frumvarpinu og ég tek það eins og það stendur þar og tel að þeirri forsendu minni sé fullnægt.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að jöfnunargjaldið eigi að ganga yfir alla. Mér finnst alveg fortakslaust að það eigi líka að ganga yfir stóriðjuna. Hæstv. ráðherra hefur í þessari umræðu komið með nokkur rök sem hún segir að leiði til þeirrar tæknilegu niðurstöðu að það sé illkleift. Ég heyri ekki betur en hinir snjöllustu menn og vöskustu, sem sumir hafa gegnt iðnaðarráðherrastöðum nýlega, tali með þeim hætti að það sé að minnsta kosti hægt að slá byttu undir þann leka til framtíðar. Menn verða þá að skoða það.

Ég er þessarar skoðunar og vil þess vegna segja það við hæstv. ráðherra að ég er sammála meginhugsun frumvarpsins. Sem þingmaður úr þéttbýli styð ég það að dreifikostnaðurinn sé jafnaður með þessum hætti, en ég áskil mér jafnframt rétt til þess að berjast fyrir því með oddi og sleggju að þetta gjald verði líka sett á stóriðjuna.