144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:50]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hana, hún hefur verið mjög góð. Þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram koma kannski ekki að öllu leyti á óvart, heldur er þetta endurtekning á mörgu hverju sem við höfum verið að ræða eða ræddum í fyrra þegar frumvarpið kom fram.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi bregðast við. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að minnast á fjarvarmaveituna og Vestmannaeyjar vegna þess að ég ætlaði að gera það í framsögu minni en láðist það. Þegar þessi gagnrýni kom fram í fyrra var komin tillaga að breytingartillögu sem rataði ekki inn í frumvarpið en hún er til og við munum koma henni til nefndarinnar vegna þess að það voru réttar ábendingar sem þar komu fram. Við munum ræða og mig minnir meira að segja að ég hafi rætt þá tillögu við hv. þingmann við þinglok í vor, þannig að þær áhyggjur eiga að vera óþarfar svo fremi sem hv. atvinnuveganefnd er sammála henni.

Hv. þm. Kristján L. Möller spurði líka hvort ég væri sammála því að nefndin geti tekið frumvarpið og snúið því algjörlega, ég vil nú hafa smá fyrirvara á því. Nei, meginmarkmiðin í frumvarpinu eru klár. En þær breytingar sem við ræddum í andsvörum áðan varðandi samspilið á milli þessarar breytingar og breytinganna á virðisaukaskattinum er eitthvað sem ég hvet nefndina og efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða, vegna þess að meginmarkmiðin eru algjörlega klár; við erum að jafna þennan kostnað við dreifingu raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Meginmarkmiðið er að landsmenn allir sitji við sama borð. Það er sú hugsun sem er ráðandi í frumvarpinu.

Ég tek undir gleði þingmannsins og fleiri sem hér hafa talað um varmadælurnar. Það var sameiginlegt áhugamál okkar margra og áhugavert að það hafi náð fram að ganga. Ég er algjörlega sammála þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að leita nýrra leiða við að tryggja þeim sem ekki búa við hitaveitu ódýrari og betri kosti. Það er það sem við höfum verið með og er engin breyting þar á í fjárlagaliðnum, sama lið og fer í húshitunina, þar eru aðrir liðir sem eru einmitt til jarðhitaleitar og hitaveituvæðingar og annað. Ég er algjörlega sammála því og get fullvissað hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að ekki stendur til að breyta þeim áherslum, frekar hitt að spýta í til að gera vel þarna. Þetta er skynsamlegt í öllu tilliti, þetta er góð fjárfesting sem mun svo leiða til þess að niðurgreiðsluþörfin í framtíðinni mun lækka.

Rætt hefur verið um auðlindagjöld og stóriðjuskatt. Það er sjálfsagt að skoða það í lengri tíma tilliti, þ.e. auðlindaumræðuna. Varðandi stóriðjuskattinn eða orkuskattinn sem ekki stendur til að framlengja var það nú þannig í tíð síðustu ríkisstjórnar að hann var settur á sem tímabundinn skattur í samkomulagi við stóriðjuna. Ég er sammála fjármálaráðherra sem hefur talað afar skýrt um það að hann verði ekki framlengdur. Þetta var samkomulag við stóriðjuna á sínum tíma um að jafna byrðar eða taka þátt í lausn þeirra mála sem við stóðum frammi fyrir eftir hrun. Ég mun því ekki leggja til breytingar á því.

Við höfum rætt hvort stóriðjan eigi að koma inn í þetta. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega vel yfir það að samningar eru þar í gildi til viðbótar við það sjónarmið mitt sem ég hvika ekki frá, það er það að við erum hér með jöfnun innan kerfisins sjálfs. Það er það sjónarmið sem ég vil ítreka hérna og á ekki að koma mönnum svo sem á óvart.

Ég held að ég hafi farið yfir þá punkta sem komu fram í umræðunni og þakka hana aftur og lýsi mig og mitt fólk í ráðuneytinu reiðubúið til að koma að þeirri vinnu sem fram undan er, sérstaklega hvað varðar að leita upplýsinga um áhrifin, bæði samspili milli þessa og virðisaukaskattsins og samspili milli lækkunar á efra þrepi og hækkunar á neðra.