144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:15]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um þær tillögur sem hafa komið fram, bæði frá ASÍ og umrætt frumvarp sem hv. þingmaður nefnir, er kannski víðtæk sátt um einhver atriði en þó voru þar atriði, t.d. hækkun á framlagi hlutafjár sem þarf til þess að stofna félög og fleira, sem er varhugavert að fara í að mínu mati vegna þess að það dregur úr frumkvæði og nýsköpun í samfélaginu.

Varðandi skil á ársreikningi þá er það alveg rétt og ég tek undir með hv. þingmanni að það er nokkuð sem við þurfum að koma í betra horf. Það er nánast óskiljanlegt af hverju þetta er svona mikið vandamál hér miðað við annars staðar á Norðurlöndum þar sem þetta tíðkast ekki; sami vandi er einfaldlega ekki fyrir hendi þar.

Ég vek athygli á því, vegna þess að ég hafði það í huga í fyrravor að leggja fram frumvarp um þetta einmitt, að það er verið að gera breytingar á tilskipun Evrópusambandsins þar sem verið er að fara yfir þessi mál, m.a. með tilliti til þeirra kvaða sem lagðar eru á fyrirtæki, sérstaklega minni fyrirtæki, við skil á ársreikningum. Það hefur líka verið gagnrýnt og menn hafa vakið athygli á því að skil á ársreikningi með ítarlegri upplýsingum hér en tíðkast annars staðar getur komið illa niður á samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þess vegna vildi ég ekki leggja fram það frumvarp á þeim tíma og gera „glæpamenn“ úr mönnum fyrir að skila ekki ársreikningi ef þeir hefðu málefnalegar ástæður til þar sem við værum (Forseti hringir.) hvort eð er að fara að gera breytingar á. Það var ástæða þess (Forseti hringir.) að ég lagði það ekki fram.