144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:17]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég kannaði það fyrir nokkrum árum hversu oft mál kæmu fyrir Hæstarétt á grundvelli hlutafélagaréttar. Niðurstaða mín var sú að það var sárasjaldan, nema þá er stjórnarmenn hlutu refsingu vegna skila á opinberum gjöldum, svokölluðum rimlagjöldum, og þátttöku stjórnar. Annars kom það sárasjaldan fyrir að mál kæmu fyrir dómstóla á grundvelli félagaréttar.

Ég fagna því að hér skuli unnið að bragarbót á ákveðnum þætti í hlutafélagalögunum sem hefur vegið að jafnræði hluthafa, þ.e. að í 55. gr. hlutafélagalaga er heimild til stjórnar til að kaupa eigin bréf. Sú heimild er í rauninni nauðsynleg vegna þess að það kann að vera að félag sé of fjármagnað, þurfi að minnka eigið fé og að sumir hluthafar vilji losna út, aðrir vilja halda áfram, þannig að arðgreiðslur dugi ekki. Sá er munur á arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum að arðgreiðslur ganga jafnt til allra en kaup á eigin bréfum eru til þeirra sem vilja selja.

Því er hins vegar þannig háttað að sú leið að kaupa eigin bréf hefur í rauninni verið notuð til að greiða tilteknum hluthöfum ótilhlýðilegan arð. Með ákvæðinu sem er í 3. gr. frumvarpsins, þar sem félag sem hefur fengið hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga er þó ekki heimilt að kaupa eigin hluti á hærra verði en nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða tilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er, er verið að reyna að stuðla að því að félag geti einungis keypt á verði sem myndast í óskyldum viðskiptum.

Um þetta hefur fallið dómur í einu máli þar sem var höfðað til þess að þessi viðskipti gengju ekki, því miður. Stjórn félagsins var sýknuð í málinu en vísað til þess að þarna væri hugsanlega um einhver ótilhlýðileg viðskipti að ræða, en þetta ákvæði á að vinna bót á þessu.

Önnur tvö atriði sem ég vildi nefna er að á aðalfundum hlutafélaga er kosinn endurskoðandi. Endurskoðandi hlutafélags er því fulltrúi hluthafa, en samkvæmt venju hér er endurskoðandi ekki til viðtals við hluthafa á hluthafafundum heldur einungis í gegnum stjórn. Ég tel að það þurfi að vinna á því bót þannig að með pósitífu ákvæði skuli endurskoðandi sitja fyrir svörum á hluthafafundi, hvort það kemur inn í gegnum þetta frumvarp í meðförum nefndar eða ekki skal ég ósagt látið, eða a.m.k. að það hafi verið kannað. Þetta á sér fyrirmynd í Svíþjóð. Þar situr endurskoðandi fyrir svörum á hluthafafundum, aðalfundum, til að mynda.

Annað er að sú heimild sem veitt er í 55. gr. til kaupa á eigin bréfum hefur gjarnan verið orðuð þannig að félagið megi kaupa 10% af útistandandi hlutabréfum á 10% yfir eða undir markaðsverði. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að þessi 10% á yfir eða undir markaðsverði hefur verið notað á óskráð félög. Þannig að ég veit ekki hvernig sú tala er fengin.

Ég tel eftir að hafa kynnt mér tilskipun Evrópusambandsins sem hlutafélagalögin byggja á og þetta ákvæði að það eigi að fastsetja hvort tveggja fjölda hluta, ekki í prósentum heldur fjölda, og fastsetja verðið eða verðbilið. Þannig að þegar þetta kemur til nefndarinnar vona ég að við berum gæfu til að huga að þessu og jafnvel að láta það ganga hratt fyrir sig. Þetta er í rauninni ekki pólitískt deilumál. Ég ætla ekki að fjalla hér um kennitöluflakk. Mín skoðun á því er sú að það eru í rauninni fjármálafyrirtæki sem gera kennitöluflakk mögulegt, því að opinberu gjöldin, fyrir þeim er séð með ýmsum refsiákvæðum þannig að þau eru nú kannski það fyrsta sem menn borga. En ég ætla ekki að ræða um það frekar, það kann að vera að það komi til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þar að kemur.

Að öðru leyti gleðst ég yfir því að þetta frumvarp skuli vera komið fram og tel að það séu fá pólitísk ágreiningsefni í þeim atriðum sem í frumvarpinu eru.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.