144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:25]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nákvæmlega það sem ég sagði um endurskoðendur, þeir eru kosnir af hluthöfum og þeir eru fulltrúar hluthafa og því tel ég að það eigi að vera pósitíft ákvæði um það að hluthafar eigi að hafa aðgang að endurskoðanda á hluthafafundi til þess að skapa jafnræði með hluthöfum.

Varðandi hlutafélög. Ég sé ekki fyrir mér hvaða vandamál það er þótt til séu sofandi hlutafélög. Þau eru skaðlaus, þau eru alla vega skaðlausari en ýmis starfandi hlutafélög. Þannig að ef menn vilja eiga þetta hlutafélag og borga fyrir það 18 þús. kr. í formi útvarpsréttargjalds og skila ársreikningum eða skila athugasemd um það að félagið sé ekki starfandi er það allt í lagi. Það eru starfandi hér 30 þús. hlutafélög í landinu. 1% af þessum 30 þús. félögum eru 300, þau eru með u.þ.b. 30% af veltu, þannig að ég tel allt í lagi að þessi félög séu til. Grundvallaratriði hlutafélagaformsins er takmörkuð ábyrgð og það kann að vera að menn vilji takmarka ábyrgð sína á einhverjum rekstri. Hvort sá rekstur er vakandi eða sofandi á tilteknum tíma skiptir ekki máli, en hlutafélagaformið er til þess að takmarka ábyrgð hluthafans við það sem hann leggur fram. Ég sé ekkert athugavert við það þótt til séu sofandi hlutafélög. Ég held að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns nægjanlega.