144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé engin deila um það að við viljum gjarnan að það sé þægilegt og þjált að stofna félög. Það er eðlilegt að greiða fyrir því og það þarf að sjálfsögðu að hafa í huga að þröskuldarnir séu ekki of háir, þó að það sé auðvitað æskilegt líka að félög fari ekki af stað á algjörum brauðfótum og allt of lítið fjármögnuð. Það má velta því fyrir sér til hvers menn eru að stofna til atvinnurekstrar með þeirri lágmarksfjárhæð sem heimilt er að greiða inn í peningum í dag, sem er mjög lág á Íslandi miðað við það sem annars staðar er. Allt má það skoða og ræða. Ég held að hinn endi málsins skipti líka máli, það er að félög lifi ekki endalaust án nokkurs rekstrar og án þess að veita neinar upplýsingar um starfsemi sína.

Svarið við spurningunni sem hér var borin upp áðan er sú að það eru í lögum heimildir til þess að þvinga fram slit á félögum ef stjórnir þeirra gera það ekki sjálfar eða eigendur, en sú heimild er núna í höndum ráðherra. Frumvarp sem hér var lagt fram í mars 2013 gerði ráð fyrir að sú heimild færðist yfir til hlutafélagaskrár þar sem ég held að hún sé miklu betur komin.

Hvað getur leitt til þess að menn segi einfaldlega: Nei, nú gengur þetta ekki lengur, nú verður bara að slíta þessu félagi? Það er til dæmis ef menn hafa ekki skilað ársreikningum þrjú ár í röð, ef menn hafa engar upplýsingar veitt um starfsemina og af nokkrum fleiri ástæðum, ef hluthafar eru orðnir færri en tveir, ef engar tilkynningar hafa borist til hlutafélagaskrár, um stjórn eða stjórnarmenn og annað í þeim dúr. Þá er greinilega eitthvað að í viðkomandi félagi. Þetta var það sem ég var að tala um.

Ég tel að það eigi að hreinsa svolítið til í þessum skógi, líka neðan frá, með því að ganga harðar eftir því að félög veiti lágmarksupplýsingar um starfsemi sína, ella sé þeim slitið. Ég held að það sé alveg augljóst og fullreynt að heimild til slíks er miklu betur komin í höndum hlutafélagaskrár en hjá ráðherra sem ekkert hefur notað hana.