144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:34]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig með minni manns að það er ekki alveg óbrigðult og ég játaði það áðan að ég vissi ekki um úrræði. Ég ætla þó að bæta aðeins úr og segja það að ein greið leið til að grisja skóg fyrirtækja er sú að við álagningu opinberra gjalda eru lögð á félög sem ekki skila inn skattframtölum, opinber gjöld, og ef þau eru ekki greidd er náttúrlega hægt að fara gjaldþrotaleiðina. Það kann að vera að sú leið þvingunar gæti grisjað þennan skóg. En ég segi einfaldlega: Ég sé ekki að þetta sé neitt teljandi vandamál, svo framarlega sem fyrirtæki greiða vörsluskatta og þau kunna að vera knúin til þess að skila gögnum með áætlun. Kannski ætti nefndin að íhuga þetta, þó ekki þannig að það tefji fyrir framgangi þessa frumvarps sem hér er lagt fram.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en vildi skjóta þessu að þannig að það lægi fyrir í þinggögnum að ég er ekki alveg minnislaus. Ég hef lokið máli mínu.