144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[14:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því hér um endurflutt mál að ræða.

Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp heildstæð rammalöggjöf um ívilnanir sem tilgreinir með gegnsæjum hætti hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til þess að veita tilteknar ívilnanir til fjárfestingarverkefna. Markmið slíkrar rammalöggjafar er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun.

Frumvarpið byggir í grunninn á eldri löggjöf um sama efni sem tók gildi árið 2010, en sá lagarammi féll úr gildi um síðastliðin áramót. Þau veittu íslenskum stjórnvöldum heimild til þess að veita tilteknar ívilnanir til nýfjárfestingarverkefna á grundvelli fjárfestingarsamninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það fyrirkomulag reyndist ágætlega og á grundvelli þeirra laga voru gerðir sex fjárfestingarsamningar og hafa fjögur af þeim verkefnum þegar komið til framkvæmda. Fyrir gildistöku þeirra laga tíðkaðist að gera sérstaka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Það fyrirkomulag reyndist þungt og tímafrekt og reynslan hefur sýnt að heppilegra er að hafa í gildi rammalöggjöf líkt og þá sem hér er mælt fyrir.

Þess ber að geta að árið 2013 tók ESA ívilnunarlögin frá 2013 upp til formlegrar rannsóknar og er þeirri rannsókn ekki lokið. Við gerð þess frumvarps sem hér er lagt fram er meðal annars tekið mið af þeim ábendingum og athugasemdum sem ESA hefur haft frammi varðandi framkvæmd umræddra laga.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru að gert er ráð fyrir að sett verði ákveðin skilyrði fyrir ívilnunum. Í skilyrðunum felst til dæmis að a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði verði fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af verði að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun. Auk þess þarf árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis að nema a.m.k. 300 millj. kr. eða nýfjárfestingin að skapa a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess.

Þá er sett það skilyrði í frumvarpinu að arðsemisútreikningar vegna nýfjárfestingar liggi fyrir auk þess sem gert er ráð fyrir að umsóknaraðilar um ívilnun þurfi að sýna fram á að án ívilnana verði fjárfestingin ekki nægjanlega arðbær.

Gert er ráð fyrir að þriggja manna nefnd hafi það hlutverk að fara yfir umsóknir um ívilnun. Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu mála. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að í stað þess að Íslandsstofa framkvæmi mat á arðsemi verði nefndinni veitt heimild til þess að fela óháðum sérfróðum aðila að leggja mat á verkefnið og arðsemi þess telji hún slíkt nauðsynlegt.

Íslandsstofa hefur með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er af tilhögun framkvæmda fyrri ívilnanalaga beðist undan því að framkvæma mat á arðsemi þeirra verkefna sem sækja um ívilnanir þar sem slík vinna fer ekki saman við meginhlutverk Íslandsstofu, sem er að kynna Ísland fyrir erlendum fjárfestum og laða ný verkefni til landsins. Með þessari breytingu verður því enn betur tryggt þegar kemur að mati á arðsemi að það sé aðili sem ekki hafi á fyrri stigum máls komið að verkefninu. Þó er rétt að taka fram að ekki er á neinn hátt hallað á Íslandsstofu fyrir störf þeirra í þessari vinnu til þessa.

Þær ívilnanir sem kveðið er á um í frumvarpinu flokkast undir byggðaaðstoð, þ.e. ívilnanir sem takmarkast við ákveðin svæði á Íslandi þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Almennt er gert ráð fyrir að ívilnanir geti numið allt að 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði.

Helstu frávik í frumvarpinu frá almennum ákvæðum laga um skatta og gjöld eru þau að gert er ráð fyrir að félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laganna fyrir veitingu ívilnunar skuli njóta 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20%. Þá er mælt fyrir um að ef almenna tekjuskattshlutfallið lækkar á tilgreindu tímabili undir fyrrgreint hlutfall skuli lægra skatthlutfallið gilda.

Þá er gert ráð fyrir að skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skuli vera 50% lægra en lögbundið lágmark kveður á um, auk þess sem gert er ráð fyrir að almennt tryggingagjald viðkomandi félags skuli vera 50% lægra en lög um tryggingagjald gera ráð fyrir. Jafnframt eru lagðar til undanþágur frá tollum og vörugjöldum vegna innflutnings og kaupa viðkomandi félags á byggingarefnum, vélum, tækjum og fleira vegna tiltekins fjárfestingarverkefnis.

Þær ívilnanir sem lagðar eru til í frumvarpinu felast þannig í frávikum frá sköttum og gjöldum, þ.e. í tekjum sem ríkissjóður verður af eða svonefndum skattastyrkjum, fremur en í formi beinna útgreiðslna sem færast á gjaldahlið ríkissjóðs.

Eins og áður segir byggist frumvarpið í grunninn á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu frá þeim lögum eru að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags verður 15% í stað 18%, auk þess sem gert er ráð fyrir að ef almenna tekjuskattshlutfallið lækkar á tilgreindu tímabili undir fyrrgreint hlutfall skuli lægra skatthlutfallið gilda fyrir viðkomandi félag.

Einnig má nefna að í frumvarpinu eru færri frávik frá skattalögum en í þágildandi lögum, en það skýrist aðallega af brottfalli laga síðan þá, t.d. laga um iðnaðarmálagjald eða breytingum á lögum, svo sem lögum um stimpilgjald. Er því frumvarpið einfaldara í sniðum hvað þetta varðar.

Með frumvarpinu er sem áður segir stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands og liðka fyrir fjölbreyttri og jákvæðri nýfjárfestingu. Er það markmið frumvarpsins í fullu samræmi við það sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, auk þess að tryggja jafnræði gagnvart lögum.“

Á undanförnum mánuðum hefur þörfin fyrir lög sem þessi mjög bersýnilega komið í ljós. Allnokkrir aðilar hafa gert viðvart og lýst yfir áhuga á að gera fjárfestingarsamninga hér á landi í anda þeirra sem þegar hafa verið gerðir. Við finnum mjög glöggt í samtölum við þessa aðila að við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd þegar kemur að ákvörðunum um staðsetningu, rekstur og fjárfestingar, því er mikilvægt að klára þessa lagasetningu sem fyrst.

Í flestum þeim ríkjum sem Ísland á í samkeppni við um nýfjárfestingar er boðið upp á ívilnanir og ríkisstyrki af einhverju tagi. Nái frumvarp þetta fram að ganga mun það efla samkeppnishæfni Íslands hvað fjárfestingar varðar, erlendar sem innlendar, og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti.

Frumvarpið felur í sér ríkisaðstoðarkerfi og hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið upplýst við vinnu frumvarpsins. Formleg fortilkynning verður í samráði við fjármálaráðuneytið sent ESA á næstu dögum og í gildistökuákvæði frumvarpsins er lagt til að fjárfestingarsamningar sem gerðir eru á grundvelli laganna taki ekki gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir því ríkisaðstoðarkerfi sem lögin fela í sér.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég geta þess að frá því að frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi tóku gildi þann 1. júlí sl. reglur framkvæmdastjórnar ESB á sviði ríkisaðstoðar um svokallaðar hópundanþágur, ef ég má nota enska heitið, með leyfi forseta, svokallaðar „general block exemption regulation“. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis og míns ráðuneytis er verið að skoða hvernig staðið verður að innleiðingu á þeim reglum.

Þessar nýju reglur frá ESB breyta því ekki að talið er skynsamlegt að lögfesta það ríkisaðstoðarkerfi um byggðaaðstoð vegna nýfjárfestingarverkefna sem frumvarp þetta gengur út á. Hins vegar er líklegt að gera þurfi minni háttar breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af hinum nýju reglum frá ESB og verða tillögur þess efnis lagðar fram og kynntar þegar frumvarpið kemur til meðferðar í atvinnuveganefnd.

Ástæða þess að það er ekki inni í þessu frumvarpinu er að reglurnar eru nýjar, voru settar í sumar eins og áður kom fram, og við erum enn að skoða hvernig þessi tvö kerfi geta spilað saman. Við töldum þó og ég taldi brýnt að þetta mál kæmi til meðferðar þingsins sem fyrst þannig að ég legg til að að þessari umræðu lokinni gangi málið til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.