144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

Orkustofnun og leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

10. mál
[15:31]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 10, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það er því um endurflutning á þessu máli að ræða að teknu tilliti til minni háttar breytinga sem gerðar voru í meðförum atvinnuveganefndar, samanber nefndarálit atvinnuveganefndar frá 6. mars 2014.

Með frumvarpinu er lagt til að orkuráð, sem starfar samkvæmt lögum um Orkustofnun, verði lagt niður. Er frumvarpið í samræmi við tillögur nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs sem skilaði skýrslu sinni og tillögum í mars 2011. Í núgildandi lögum kemur fram að ráðherra skipi fimm menn í orkuráð og að verkefni orkuráðs séu m.a. fólgin í ráðgjöf við framkvæmd verkefna og að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að verkefni orkuráðs færist yfir til Orkustofnunar og að sérstakri úthlutunarnefnd Orkusjóðs verði falið að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Ástæður þess að með frumvarpinu er lagt til að hlutverk sérstaks orkuráðs verði lagt niður eru annars vegar að Orkustofnun er stjórnað samkvæmt sérstökum árangursstjórnarsamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hins vegar að aðkoma ríkisvaldsins að orkumálum hefur tekið miklum breytingum frá því að orkuráð var sett á laggirnar. Viðfangsefni orkuráðs hafa færst í ríkari mæli yfir í að meta tæknilega möguleika og útfærslur vegna þeirra verkefna sem Orkusjóður kemur að. Frumvarpið kemur einnig til móts við þær athugasemdir Ríkisendurskoðunar að núverandi fyrirkomulag kunni að vera of kostnaðarsamt miðað við umfang verkefna orkuráðs og Orkusjóðs. Er því um einföldun í regluverki og hagræðingu að ræða.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun, Orkusjóð og orkuráð. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að þóknanir vegna orkuráðs hafa numið 4,6 millj. kr. á ári með launatengdum gjöldum. Verði frumvarpið að lögum mun sá kostnaður Orkusjóðs falla niður. Á móti er gert ráð fyrir að umsýslukostnaður við þriggja manna úthlutunarnefnd samkvæmt frumvarpi þessu verði um 2 millj. kr. á ári. Verði frumvarpið að óbreyttu lögfest má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni lækka um 2,6 millj. kr. á ári.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.