144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég byrja á síðari spurningunni: Eins og ég rakti í ræðu minni þá eru þetta þrjár sviðsmyndir sem gætu leitt til þess að það ríkisolíufélag sem við fjöllum hér um yrði stofnað. Ég tók það líka sérstaklega fram að það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda hingað til — ég er nú ekki með ræðuna hér fyrir framan mig — og ég held meira að segja að ég hafi orðað það þannig að það sé ekki líklegt að slík stefnubreyting verði. Ég hef engin áform um slíka stefnubreytingu og vil nota þetta tækifæri og ítreka það.

Varðandi Norðmenn þá er það skrifað í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem þar er við völd að hinkra með Lófóten-svæðið. Ég hef rætt það almennt við norska orkumálaráðherrann en ég sé ekki fyrir mér að íslensk stjórnvöld blandi sér inn í norsk stjórnmál á þann veg að við færum að ýta á eftir öðrum ákvörðunum með þetta svæði. Enda greindi norski ráðherrann mér frá því að þessi plön þeirra á næstu árum væru þannig að þrátt fyrir að Lófóten-svæðið væri sett á ís, ef svo mætti segja, þá væru þeir með það mikið fram undan að ekki yrði verkefnaskortur hjá þeim í þessum geira.