144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[15:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið að fá að ræða aðeins um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um visthönnun vöru sem notar orku. Yfirskriftin er þessi en það er verið að breyta orðalaginu í vöru sem tengist orkunotkun og ætti kannski að breyta yfirskriftinni í visthönnun vöru sem tengist orku. Það mætti hugsanlega færa það hér inn.

Á þetta við á Íslandi? Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er verið að innleiða Evróputilskipanir sem eru mjög mikilvægar í Evrópusambandinu, vegna þess að þar er bæði raforka og orka til húshitunar að mestu leyti búin til með útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það á ekki við á Íslandi.

Það má segja sem svo að hér á Íslandi höfum við fjárfest í upphafsbúnaði raforkunnar með þeim hætti að við ættum ekki að þurfa líka að fjárfesta í jaðarbúnaði sem notar raforku, sem að sjálfsögðu er dýrari búnaður en sá búnaður sem er ekki hannaður til þess að spara orku og er hugsanlega betri og öflugri á ýmsan hátt. Hér er búið að innleiða reglur um að ekki megi nota venjulegar ljósaperur, hér höfum við þurft að fjárfesta í sparperum. Það er von á reglum um ryksugur sem mega ekki vera kraftmeiri en eitthvað ákveðið. Allt er þetta gott og gilt í Evrópusambandinu en ég veit að þeir þurfa að ganga enn lengra og næst verða það hárþurrkurnar og hugsanlega rafbílarnir. Allt veldur þetta kostnaði.

Ég hef ekkert á móti því að íslenskir neytendur geti valið að kaupa sparneytin raftæki og það ætti hver og einn að hafa frelsi til þess, en að skylda alla þjóðina til þess að fjárfesta t.d. í þessum dýrari og hugsanlega verri jaðarbúnaði mun valda okkur sem þjóð miklum kostnaði.

Ég skal taka dæmi með rafbíla og hvað gerist ef við innleiðum þessar gerðir allar. Hér á Íslandi er bílaflotinn um 200 þús. bifreiðar. Á næstu 10–20 árum þurfum við kannski að kaupa í kringum 100 þús. rafbíla til landsins, eftir því sem þeir verða ódýrari og hagkvæmari kostur og samkeppnishæfari við bensínbíla. Segjum þá sem dæmi að við mundum flytja inn 100 þús. rafbíla yfir 10–20 ára tímabil. Með því að kaupa þessa orkusparneytnu rafbíla munu þeir kosta 100 þús. kr. meira í innkaupum í gjaldeyri. Sá reikningur verður 10 milljarðar. Og allt er það gert til að spara útblástur, en það er enginn útblástur af gróðurhúsalofttegundum á Íslandi, a.m.k. sáralítill og ekki sem tengist raforkuframleiðslu.

Ég hef búið í Evrópu og þar var reikningur fyrir húshitun, en húsið var kynt með olíu, vel yfir 100 þús. kr. á mánuði. Hérna er reikningurinn nær því að vera 15 þús. kr. Ég skil vel að í Evrópusambandinu sé rétt að setja í lög reglur um að hús séu byggð með þykkari einangrun. Það getur skipt miklu máli að draga úr húshitunarkostnaði um 10% í Evrópusambandinu og að innleiða reglugerðir sem fyrirskipa að gluggar hafi meira einangrunargildi glugga og húsnæði almennt. Að sjálfsögðu er kostnaðarsamt að gera það, en sparnaður um 10% þar gerir hugsanlega 15 þús. kr. á mánuði. Hérna er það 1.500 kr. á mánuði og dæmið gengur ekki upp. Fjárfestingin hefur neikvæða útkomu.

Þess vegna hef ég haldið því fram að við sem þjóð í þessu ágæta samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið ættum að halda á lofti sérstöðu okkar, vekja athygli á því að við höfum fjárfest nú þegar í upphafsbúnaði raforku og innleitt þannig húshitunarkerfi að ekki er hægt að ná árangri með því að kaupa dýrari og lakari jaðartæki sem eyða minni orku. Ég held að það sé tímabært að við í þágu þess að gera samstarfið betra leitum eftir því að undanskilja okkur þeim kafla sem fjallar um visthönnun vöru. Hann var upprunalega samþykktur líklega um það leyti sem við gengum í Evrópska efnahagssvæðið og menn óraði ekki fyrir því að inn í þennan kafla yrðu dregin þessi óskyldu tæki. Og núna er verið að víkka svið kaflans út, ekki bara til tækja sem tengjast rafmagni heldur sem tengjast orkunotkun. Ég held að þetta sé stórhættuleg þróun, ég vil vara mjög sterklega við þessu og vekja þingmenn til meðvitundar um að það eru ekki hagsmunir íslensku þjóðarinnar og ekki hagsmunir Evrópska efnahagssvæðisins heldur að þetta verði innleitt á Íslandi.