144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[16:01]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra örlítið út í það að málið tengist bara því að nýta betur orkuna en ekki því hvernig orkan er búin til. Vissulega erum við sammála um að það er alltaf gott að nýta orku vel. Við höfum ákveðið að fjárfesta gríðarlega í mjög hagkvæmum virkjunum. Það var ekki ókeypis, það kostaði mjög mikið. Þessa fjárfestingu hefur Evrópusambandið ekki lagt í, en fjárfestir hins vegar núna í jaðartækjum og öllum búnaði sem tengist orkunotkun og getur leitt til orkusparnaðar. Það er til að draga úr útblæstri, til að gera Evrópusambandið minna háð gasi sem það þarf að kaupa, m.a. frá Rússlandi. Allt getur þetta skipt miklu máli í Evrópusambandinu.

Þetta eru atriði sem eru ekki efst í forgangsröðun hjá landi sem þegar hefur fjárfest með gríðarlegum tilkostnaði í því hvernig orkan er búin til. Það ætti að skapa okkur samkeppnisstöðu, t.d. í netþjónabúum, að geta keypt netþjóna sem eru ódýrari og uppfylla ekki sömu kröfur til kælingar og orkunotkunar eins og eðlilegt er að gera í Evrópusambandinu eða í landi sem býr til orku sína með útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hvers vegna ættum við að íþyngja íslenskum fyrirtækjum sem eru í alþjóðlegri samkeppni, t.d. um hýsingu netþjóna, með kröfum sem eiga bara alls ekkert við? Við erum í raun að taka af okkar fyrirtækjum eðlilega samkeppnisstöðu. Hvers vegna ætti t.d. heimili á Íslandi ekki að geta keypt nýtísku rafmagnsbíl frá Suður-Kóreu, þann besta í heimi á lægsta verðinu, vegna þess að hann hefur ekki uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins um orkunýtni?

Ég vil að við höldum okkar möguleikum opnum. Við höfum fjárfest í afskaplega hagkvæmum virkjunum sem hafa kostað mikið, húsin eru kynt með heitu vatni en ekki með olíu. Ég vil ítreka aðvaranir mínar og ég tel að það sé fullt tilefni til þess að við höfum fullt frelsi í þessu.