144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[16:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er grundvallarmisskilningur fólginn í því að halda því fram að þessar vörur séu alltaf dýrari og muni þess vegna íþyngja ungum fjölskyldum sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Þvert á móti eru þessar vörur oft og tíðum ódýrari (Gripið fram í.) — það hefur ekki með það að gera — og leiða, eins og ég sagði áðan, til lægri raforkureiknings fyrir heimilin í landinu.

Varðandi spurninguna um það hvort við séum stimpilpúði eða ekki þá er ég alveg sammála hv. þingmanni að auðvitað eigum við að koma athugasemdum okkar á framfæri. Það höfum við rætt margítrekað á Alþingi: Af hverju höfum við ekki gert það á réttum tíma í gegnum tíðina? (Gripið fram í.) Við höfum skoðað þetta á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem ég sat um nokkurra ára skeið og höfum gert breytingar til bóta, leyfi ég mér að segja, í þeim efnum. Við erum miklu meðvitaðri um það hvenær í ferlinu við getum gert athugasemdir og komið athugasemdum á framfæri og ég held að við ættum endilega að nota þann farveg, þann vettvang. En þar sem við gerðum hér ekki athugasemdir á fyrri stigum er staðreyndin einfaldlega sú að við erum skuldbundin til þess að innleiða þessar gerðir og við það situr.

Ég hvet hv. þingmann hins vegar til þess að vera vel á verði gagnvart því sem á að innleiða, á rétta stiginu, á meðan við höfum tækifæri til þess að gera athugasemdir, vegna þess að það er mikilvægasti tímapunkturinn í ferlinu.