144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að eftir svo sköruglegan maraþonlestur á flókinni ræðu þá ringlist menn með þeim hætti að þeir sjá út undan sér jafnvel hæstv. forseta birtast sem kvenlega gyðju. Það er nú önnur saga.

Ég kem hér til þess að lýsa stuðningi við þetta frumvarp. Ég tel að þetta sé til marks um það að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu feli í sér mjög mikilvæga neytendavernd. Ég veit það að ýmsir hv. þingmenn eru mér ósammála og telja að þetta leggi aðeins á okkur alls konar kvaðir og skyldur. Í tengslum við það og væntanlega ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, að ég segi nú ekki fyrri ræður hans hér í dag, þá er staðan einfaldlega þannig að það er alveg sama hvað við rembumst í þessum málum, við verðum að taka því sem að okkur er rétt frá Evrópusambandinu vegna aðildarinnar að EES. Það er einfaldlega þannig. Það má vel vera að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að hægt sé að setja atgervi í það að skoða málin fyrr í ferlinu, en reynslan sýnir að það er ákaflega erfitt að breyta þeim.

Þess vegna hef ég stundum sagt við þann ágæta hv. þingmann að honum væri nær að slást í för með mér og ríða í herfylkingu inn í Evrópusambandið vegna þess að þar getum við haft þessi áhrif. Þar höfum við valdið til þess.

Þetta var nú ekki efni ræðu minnar. Ég er þegar búinn að lýsa stuðningi við þetta mál, en ég ætla líka að óska hæstv. ráðherra til hamingju með það hvað hún er dugleg að ryðja hér í gegn hverju Evrópufrumvarpinu á fætur öðru. Það hefur engin ríkisstjórn staðið sig svona vel. Það var nýlega upplýst í fjölmiðlum að helmingurinn af öllum þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram er Evrópufrumvörp. Þetta er fólkið sem var á móti Evrópusambandinu en enginn stendur sig jafn vel í að koma fyrirmælum og skipunum Evrópusambandsins til skila og það fólk. Ég segi bara: Batnandi fólki er best að lifa.