144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að hv. þingmaður getur skemmt sér yfir þessum ræðuhöldum hérna. Maður á að passa sig á því hvað maður segir í fortíðinni, þetta kemur allt í hausinn á manni. En það sem ég get þó sagt er að við erum hér að glíma við innleiðingarhalla frá fyrri ríkisstjórn og þess vegna þurfum við að klára þessi ágætu mál.

Að öllu gríni slepptu erum við hv. þingmaður, og það kemur honum svo sannarlega ekki á óvart, ekki alveg sammála í Evrópumálunum. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar eftir að hafa unnið og skoðað hvernig við höfum látið tækifærin fram hjá okkur fara í fortíðinni. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að við getum komið athugasemdum okkar, sjónarmiðum og fyrirvörum miklu fyrr og miklu sterkar á framfæri en við höfum gert og ég held að það sé alveg sama í hvaða flokki menn eru eða hvenær þeir hafa setið á þingi. Við fórum mjög ítarlega yfir þetta í utanríkismálanefndinni frá 2007–2009 í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem utanríkisráðherra. Utanríkismálanefndin fór vel yfir þetta og þegar við röktum okkur aftur til ársins 1991 og 1992 þegar menn voru að setja sér reglur um það hvernig ætti að hafa samskiptin og koma athugasemdum á framfæri voru allir sammála um að þessum reglum var aldrei framfylgt. Ég held að við eigum að gera gangskör að þessu og ég veit að það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur áform um.