144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá var kannski munurinn á mér sem ráðherra og hæstv. forseta þegar hann fór með handhöfn framkvæmdarvalds að við fórum ekkert á tauginni gagnvart ESB. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það hafi verið hyskni okkar sem veldur því að hún er hér sveitt við að troða Evróputilskipunum í gegn en það var einfaldlega þannig að við fórum á þeim hraða sem okkur þótti ESB verðskulda. Við erum alla vega ekki að tapa svefni yfir því þótt tilskipanir af þessu tagi séu skoðaðar ákaflega vel af þinginu. Hæstv. ráðherra vísar auðvitað til þess að það er verið að skaka skellum úti í Evrópusambandinu. Ég bendi hæstv. ráðherra á að taka sér til fordæmis hv. formann utanríkismálanefndar. Hann tekur sér allan þann tíma eins og vera ber fyrir hönd nefndarinnar til að skoða málið út í hörgul jafnvel þótt verið sé að láta hnútasvipu ríða á herðablöðum manna með einhvers konar hótunum um dagsetningar á fundi úti í Brussel. Við ráðum þessu sjálf.

Að öðru leyti óska ég hæstv. ráðherra líka til hamingju með það að hún er samkvæm sjálfri sér. Hún er í ríkisstjórn sem lýsti því beinlínis yfir, sem kom mér mjög á óvart, að hin nýja Evrópustefna fælist í því að flýta innleiðingu tilskipana og hún hefur staðið sig vel í því, eins og ég hef þegar rakið, miklu betur heldur en ég. Þessi ríkisstjórn hefur nú þegar á skömmum ferli sett Íslandsmet þegar hún tróð hér í gegn með dæmafáum flýti tilskipun sem ekki var búið að staðfesta úti í Brussel og var ekki orðin formlega til. Ég held að það sé heimsmet en ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó að slík met séu slegin og hyggst ekki reyna að keppa við hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Varðandi það hvort hægt er að hafa áhrif er auðvitað hægt að hafa einhver áhrif. Það er hægt að benda á svolítið dæmi um það, þau eru ekki mjög stór. Í öllum hinum stærri málum sýnir reynslan að það er alveg sama hvað menn skakast, það gengur ekki neitt. Það er bara ein leið til. Ég ætla ekki að pirra hæstv. ráðherra með því að rifja hana enn einu sinni upp.