144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fyrst ætla ég að byrja á því að segja að ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni þegar hann nánast skellir upp úr og slær sér á lær af mikilli undrun yfir þessari refsigleði. Hann kom hér með mjög fína og beinskeytta spurningu sem ég tók eftir að hæstv. ráðherra vék sér undan að svara. Hv. þingmaður spurði hvort það væri öruggt að það væri krafa Evrópusambandsins að skella svona svakalegri sekt á menn fyrir að skirrast við það að koma á framfæri tilteknum upplýsingum. Það kom ekkert svar við því. Ég get ekki svarað því heldur. En ég vil hins vegar segja það, svo það komi fram, af því að eins og hæstv. forseti og reyndar aðrir þingmenn og sérstaklega hv. þm. Frosti Sigurjónsson vita er ekki hægt að telja mig til hóps óvildarmanna ESB, miklu frekar mundu menn segja að ég væri óhóflega hrifinn af þeim samtökum, að sé það ESB sem fyrirskipar svona fáránlega háar sektir get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að þarna skíni í gegn óþarfarefsigleði. Þá finnst mér að nefndin eigi að skoða það mjög rækilega. Ég er þeirrar skoðunar að í svona efnum geti ekki verið annað en að við höfum eitthvert vald, þó að lýðræðishalli innan EES sé þannig að við verðum að standa og sitja eins og Brussel vill í þessum efnum þangað til við gerumst aðilar að ESB.

Ég hef áður lýst stuðningi mínum við þetta frumvarp. En mig langar aðeins til að ræða hér orð hæstv. ráðherra um að Íslendingar ætli nú loksins að taka á honum stóra sínum og láta finna fyrir sér í Brussel. Þeir ætli sér að hafa áhrif fyrr í ferlinu og brjóta mál á bak aftur ef hagsmunir krefjast. Þetta er partur af hinni nýju Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég velti því fyrir mér hvort þá sé farsælt til að koma þessu í kring að draga heldur úr starfsemi sendiráðsins í Brussel. Þar hefur árum saman verið að fækka starfsmönnum sem þangað eru sendir af hálfu einstakra ráðuneyta. Ég leit oft svo á að þeir starfsmenn, sem voru beinlínis fulltrúar einstakra ráðuneyta, væru kannski langmikilvægastir hvað þetta varðar.

Eigi að síður veit ég ekki betur en að þessi ríkisstjórn hafi skrælt enn frekar utan af sendiráðinu. Nóg var nú gert þegar ég og hæstv. forseti sátum í ríkisstjórn og vorum nauðbeygðir til að reyna hvar sem hægt var að skera öll fitulög og jafnvel dýpra. Við reyndum þó að snúa við af þeirri braut einmitt til að verja þessa hagsmuni. Ef hæstv. ráðherra telur að þetta sé mikilvægt þá verður maður að spyrja sig þeirrar spurningar: Af hverju sýnir hæstv. ríkisstjórn það ekki í verki með því að bæta við fjárveitingum til að kosta þá vinnu?

Það er kannski af því að hæstv. ráðherra hefur skoðað málið vel. Hugsanlega hefur hún leitað ráða hjá Norðmönnum. Ef til vill hefur hún lesið skýrsluna sem kennd var við Sejersted, sem við ræddum á sínum tíma í þinginu. Það er 980 blaðsíðna úttekt á því hvernig aðild að EES hefur haft áhrif á norskt samfélag, norskt stjórnkerfi og úttekt á möguleikum Norðmanna til að hafa áhrif á ákvarðanirnar sem þar eru teknar og varða Norðmenn. Í skýrslunni kemur fram að Norðmenn hafa 80 manna sendilið í Brussel beinlínis til að vinna að þessu og hver varð niðurstaða skýrslunnar? Hún var sú að það voru engin tækifæri fyrir Norðmenn með sitt 80 manna herlið í Brussel til að hafa nokkur áhrif sem einhverju næmi. Það er reynsla þeirra. Hver er staðan fyrir okkur? Hvað er umfangið mikið af þeim störfum sem við þurfum að sinna ef við ætlum okkur að vera alltaf á varðbergi, fylgja hverju máli eftir? Þetta eru 400 nefndir. Íslendingar þyrftu að fylgjast með 400 nefndum ef þeir ætluðu að nýta sér allan sinn rétt til að fylgjast með öllum málum frá vöggu og fram á sokkabandsárin. Hvernig á ríki eins og við að geta sinnt því? Það er mjög erfitt, jafnvel þótt allir væru af vilja gerðir.

Hvað höfum við gert? Við höfum farið þá leið að leita til Norðmanna. Við höfum í mörgum og langflestum tilvikum reynt að vera í þannig sambandi við Norðmenn að þeir láti okkur vita ef þeir telja að í sömu málum, sem við höfum ekki getað sinnt eða fylgt eftir, sé eitthvað að gerast sem kynni að varða okkar hagsmuni. Þannig er það. Hvernig er hægt að ætlast til þess, ef Norðmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafi ekki getað haft áhrif á löggjöf sem kemur frá Brussel með margfalt meira lið en við, að við leitum síðan til þeirra? Þar seilast menn um hurð til lokunnar. Hins vegar getur hæstv. ráðherra verið vígreif og sagt: Við ætlum að gera þetta allt miklu betur, krakkar, við skulum bara taka á því, vera Íslendingar og vinna málin.

En svona er staðan: Frá því að við urðum aðilar að EES á sínum tíma hafa hlutirnir gerbreyst innan Evrópusambandsins. Lýðræðishallinn innan sambandsins hefur verið þannig að menn hafa neyðst til að reyna að vinna gegn honum. Því hefur Evrópuþingið fengið miklu meiri völd. En völdin sem fara til Evrópuþingsins þýða um leið að vægið sem við höfðum til að geta haft áhrif á mál minnkar allverulega.

Ef upp koma deilumál innan Evrópusambandsins þar sem er ágreiningur á milli ráðherraráðsins, framkvæmdastjórnarinnar annars vegar og Evrópuþingsins hins vegar fer málið í ákveðið ferli þar sem leitað er samráðs. En ef það ferli leiðir ekki til niðurstöðu sem sátt er um, þá ræður þingið, eins og dæmin sýna. Þó að við höfum sannarlega rétt til að hafa aðkomu á allra fyrstu stigum að mótun löggjafar og reglna frá Evrópusambandinu rýkur það allt út í veður og vind ef ágreiningur kemur upp sem er leystur með þessum hætti.

Ég hef stundum velt því fyrir mér: Hvar höfum við möguleika til að hafa áhrif í þeim tilvikum þegar um er að ræða stóra hagsmuni fyrir Ísland? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin væri sennilega að þekkjast boð sem á sínum tíma var beint til okkar Íslendinga frá þingflokkunum sem eiga sæti á Evrópuþinginu. Það fól í sér að íslensku stjórnmálaflokkarnir gætu haft áheyrnarfulltrúa með fasta setu í þingflokkunum á Evrópuþinginu.

Ég held að ef það kæmi upp stórt álitamál sem varðaði íslenska hagsmuni miklu þá mundu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi væntanlega allir vera sammála um hvernig ætti að bregðast við í því máli og reyna að breyta því. Þá mundu þeir, hver með sínum hætti í gegnum fulltrúa sína eða seturétt í þessum þingflokkum, geta haft áhrif. Það væri besta leiðin, í gegnum flokkahópa sína. Ég held að það sé eina leiðin við núverandi aðstæður þar sem við gætum haft möguleika utan Evrópusambandsins á að hnika til verulega stórum málum ef til kæmi. Ég vísa bara til Sejersted-skýrslunnar. Norðmenn komust að þessari niðurstöðu og sama hvað ríkisstjórnin talar hátt um að hún ætli að reyna að breyta þessu ferli, sýna meiri aðgæslu og vera fyrr á ferðinni hefur það ákaflega lítil áhrif. Það sýnir reynslan. Ég tel líka að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir þessu því á sama tíma og hún heldur þessu fram skrúfar hún niður fjármagnið sem á að fara til að standa þessa varðstöðu, þannig að hún skilur þetta alveg jafn vel og ég.